135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

neytendalán.

537. mál
[17:34]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. viðskiptaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum nr. 121/1994, um neytendalán. Eins og fram kom í máli hæstv. viðskiptaráðherra er frumvarpið samið á grundvelli skýrslu starfshóps sem hann skipaði í ágúst sl. Í starfshópnum sátu átta manns og m.a. fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu, Neytendastofu, Neytendasamtökunum, Samtökum fjármálafyrirtækja, talsmanni neytenda auk starfsmanna ráðuneytisins.

Fram kom í skýrslu starfshópsins, sem hittist alls tíu sinnum, að allir þátttakendur voru sammála um að bæta megi íslenskt lagaumhverfi er snýr að réttindum og skyldum í fjármálaþjónustu frá því sem nú er. Einnig voru allir þátttakendur í starfshópnum sammála um að upplýsingagjöf og gegnsæi í viðskiptum fjármálafyrirtækja gagnvart neytendum sé lykilatriði hvað varðar heimildir til gjaldtöku vegna ólíkra þjónustuþátta.

Í frumvarpinu eru fjórar greinar. Um FIT-kostnað svokallaðan, um upplýsingagjöf, uppgreiðslugjald lána og um greiðslu tryggingafjár. Viðskiptanefnd mun væntanlega taka frumvarpið til umfjöllunar, kalla fyrir nefndina hagsmunaaðila, kalla eftir og heyra þeirra sjónarmið. Eins og fram kom í greinargerð með frumvarpinu er ekki um heildarendurskoðun laga um neytendalán að ræða heldur breytingar sem varða ofangreindar fjórar greinar.

Í skýrslu starfshópsins, sem ég nefndi áðan, kemur fram að fyrir liggur tillaga að nýrri Evróputilskipun um neytendalán, tilskipun sem við þurfum væntanlega að innleiða inn í íslenska löggjöf þegar þar að kemur. Meginmarkmið þeirrar tilskipunartillögu er frekari sameining markaða og aukin neytendavernd líkt og aukin neytendavernd er meginmarkmið hér.

Ég ætla að nefna nokkra þætti í sambandi við þessa nýju Evróputilskipun sem er að vísu bara í tillöguformi eins og er. Þar er gert ráð fyrir að unnið verði að því að staðla framsetningu á samanburðarhæfum upplýsingum, að opna markaðinn, þennan Evrópumarkað, fyrir lánum á milli aðildarríkja og gera lánaumhverfi bæði opnara og gagnsærra. Í öðru lagi vildi ég nefna að þar er gert ráð fyrir að birta þurfi í lánaauglýsingum staðlaðar upplýsingar með helstu staðreyndum og tölum neytendum í hag þannig að þeir geti gert sinn samanburð. Í þriðja lagi að settar verði reglur um framsetningu skilmála og hvernig upplýsingar komi fram í lánatilboðum þannig að neytendur hafi aðgang og staðlaðar upplýsingar til að gera samanburð. Í fjórða lagi er talað um að settar verði samhæfðar reglur á EES-svæðinu um þær bætur sem lánveitendum er heimilt að krefjast vegna uppgreiðslu lána.

Aftur að þessum fjórum greinum frumvarpsins. Ég velti fyrir mér að hvaða leyti sú Evróputilskipun sem ég nefndi áðan og væntanleg er um neytendamál tekur á þáttum frumvarpsins. Hæstv. viðskiptaráðherra benti í máli sínu áðan á eitt, sem ég vissi ekki, að veðlán eru utan tilskipunarinnar um neytendalán. Það má því vel vera að ég þurfi að skoða þetta mun betur. Alla vega vöknuðu með mér þessar spurningar: Að hvaða leyti fjallar þessi væntanlega löggjöf, sem við þurfum að innleiða með Evróputilskipuninni, um sömu mál og við erum að fjalla um hér? Ég velti því þá fyrir mér líka hvort seinna í framtíðinni, og kannski innan ekki langs tíma, þurfi aftur að endurskoða þessa löggjöf. Mér hugnast ekki að vera með rótleysi í stöðunni gagnvart bæði neytendum og fyrirtækjum en ég lýsi því aftur yfir að ég þekki málið ekki nógu vel til að taka af skarið um það og þá sérstaklega eftir að hæstv. ráðherra hefur bent á að veðlán eru utan tilskipunar og það eru vissulega veðlánin sem við Íslendingar erum að taka í miklum mæli.

Ég gæti farið út í fleiri þætti hér. Mig langar aðeins að nefna FIT-kotsnaðinn. FIT stendur fyrir færsluskrá innstæðulausra tékka og sá kostnaður kemur til, eins og flestir neytendur þekkja, þegar um er að ræða óheimilan yfirdrátt af tékkareikningi. Mér skilst að það sé svolítið séríslenskt að þetta sé í þetta miklum mæli hérna og að bankastofnanir eða fjármálastofnanir leyfi yfir höfuð slíkt. Ég vil líka nefna að með nútímaviðskiptaháttum verður þessu vonandi útrýmt, og ég trúi því. Ég er á því eins og flestir að FIT-kostnaði sé stillt í hóf og sé sanngjarn. En við verðum að átta okkur á því að það er ekki eðlilegt í viðskiptaháttum að hafa óheimilan yfirdrátt.

Ég ætla ekki að nefna mikið meira að þessu sinni. Ég hlakka til að fá þessi mál inn á borð viðskiptanefndar. Við munum fara yfir þau með þeim hagsmunaaðilum sem um ræðir og vonandi fá þá á okkar fund.