135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

minning Geirs Gunnarssonar.

[15:01]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Geir Gunnarsson, fyrrv. alþingismaður, andaðist í fyrradag, laugardaginn 5. apríl. Hann var tæpra 78 ára að aldri.

Geir Gunnarsson var fæddur í Hafnarfirði 12. apríl árið 1930. Foreldrar hans voru Björg Björgólfsdóttir húsmóðir og maður hennar Gunnar Ingibergur Hjörleifsson sjómaður, er fórst í hinu mikla sjóslysi síðla árs 1941 er togarinn Sviði úr Hafnarfirði sökk. Geir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1951 og nam síðan viðskiptafræði í Háskóla Íslands árin 1951–1954. Frá 1. mars 1954 var hann skrifstofustjóri Hafnarfjarðarbæjar og lét af því starfi 1. desember 1962.

Í kosningum til Alþingis árið 1956 og sumarkosningum 1959 var Geir Gunnarsson í kjöri fyrir Alþýðubandalagið í Hafnarfirði og varð varaþingmaður landskjörinna alþingismanna. Tók hann þá tvisvar sæti á Alþingi, fyrst 1957 og síðan 1959. Í haustkosningunum 1959 var hann á lista Alþýðubandalagsins í Reykjaneskjördæmi, náði kjöri og átti sæti á Alþingi samfleytt til ársins 1991, sat á 37 þingum alls.

Árið 1991, að lokinni þingsetu í 32 ár, var Geir Gunnarsson skipaður aðstoðarríkissáttasemjari. Þar naut hann reynslu sinnar og skarpskyggni og þess trausts sem hann hafði áunnið sér. Honum voru á þingferli sínum og síðar falin ýmis aukastörf og verður einungis fárra getið. Hann var í tryggingaráði 1967–1978, var skipaður 1971 í endurskoðunarnefnd tryggingakerfisins og 1972 í þingmannanefnd til að endurskoða tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins, síðar Byggðastofnunar, var hann 1978–1987, í bankaráði Seðlabankans 1990–1993 og í bankaráði Búnaðarbankans 1994–1997.

Geir ólst upp á sjómannsheimili í Hafnarfirði og lifði breytilega tíma á langri ævi. Að loknu skólanámi tók hann við mikilvægu starfi á vegum bæjarfélagsins, en sneri sér síðan að landsmálum. Hann var vel búinn undir að taka sæti á Alþingi, en þar átti hann lengi sæti í fjárveitinganefnd, var talsmaður síns flokks í þeim málaflokki og á tímabili formaður fjárveitinganefndar. Naut hann þar víðtækrar þekkingar sinnar á fjármálum ríkisins, þótti fastur fyrir en var jafnframt lipurmenni í samstarfi og glaðsinna.

Ég bið hv. alþingismenn að rísa úr sætum í minningu Geirs Gunnarssonar. — [Þingmenn risu úr sætum.]