135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

ferðamáti ríkisstjórnarinnar í einkaþotum.

[15:09]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fram kemur í fréttum í dag að hæstv. forsætisráðherra, Geir H . Haarde, og hæstv. viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson, séu nú síðdegis á leið til útlanda í einkaflugvél. Fyrir nokkrum dögum var það gagnrýnt harðlega þegar oddvitar ríkisstjórnarflokkanna héldu ásamt föruneyti sínu til Búkarest í Rúmeníu á NATO-fund í einkaþotu.

Á Alþingi hefur verið lögð fram fyrirspurn um tilkostnaðinn við þá ferð. Það var gert eftir að ríkisstjórnin hafði neitað að gefa upp kostnaðinn, nokkuð sem ég fæ ekki skilið því væntanlega mun þetta koma fram í ríkisreikningi þegar þar að kemur. Ekki er þetta svört vinna eða hvað?

Síðan er hitt að svona upplýsingar eiga að mínum dómi að vera opinberar og mín fyrsta spurning til hæstv. forsætisráðherra er hvernig standi á þessari leynd og þessu pukri. Þau Geir H. Haarde, hæstv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hæstv. utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hafa réttlætt flottræfilsháttinn þannig að þau segjast vera að spara tíma. Í þessum ferðamáta væri einnig fólgið hagræði. Ekki efa ég að svo sé. Það vill hins vegar svo til að þetta mundi eiga við um okkur öll, þetta mundi eiga við um landsmenn almennt. Það er nefnilega auðveldara og þægilegra að ferðast til útlanda í einkaflugvél en gera eins og við gerum flest, að taka áætlunarflugvél frá Keflavík.

Hvaða skilaboð eru þetta um umhverfisvænan ferðamáta? Hvaða skilaboð eru þetta um nauðsyn ráðdeildar og sparnaðar á mestu verðbólgutímum í hálfan annan áratug á Íslandi? Mér leikur forvitni á að heyra hvort þetta sé nýr ferðamáti sem ríkisstjórnin hefur valið sér og þá hvaða skilaboð hún sé að senda út í þjóðfélagið með þessu framferði sínu?