135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

almannatryggingar.

[15:16]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspurn mín snýr að því hvort ríkisstjórnin hafi svikið þau fyrirheit sem fyrrverandi ríkisstjórn gaf öldruðum og lífeyrisþegum í kjölfar niðurstöðu hinnar svokölluðu Ásmundarnefndar. Sú nefnd skilaði niðurstöðum sínum í júní 2006 og ráðist var í umfangsmiklar breytingar á kerfinu og hækkuðu lægstur bætur til samræmis við lægstu laun strax í kjölfarið. Þá var núverandi hæstv. forsætisráðherra nýtekinn við störfum. Hann er enn forsætisráðherra, ég sé ekki betur en sami maðurinn sitji í því sæti.

Núverandi ríkisstjórn hækkaði bætur almannatrygginga um 4% frá og með 1. febrúar sl. Sú ákvörðun miðast við að meta áhrif kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á meðallaun verkafólks. Frá þeirri hækkun er dregin hækkun bóta um áramótin, sem var 3,3%, og þannig fást 4%. Samkvæmt Ásmundarnefndarsamkomulaginu 2006 var ákveðið að tryggja að bætur almannatrygginga mundu hækka um það sama og ákveðið var í kjarasamningum sem varð til þess að fullar bætur, sem eru í reynd lágmarksbætur í landinu, hækkuðu og urðu aðeins hærri en lægsti taxti. Jafnframt var ráðist í einföldun kerfisins, lækkun skerðingarhlutfalls, hækkun heimilisbótar o.s.frv.

Þegar fyrrverandi ríkisstjórn gerði samkomulagið við elli- og örorkulífeyrisþega um mitt ár 2006 héldu fulltrúar Samfylkingarinnar því fram að of skammt væri gengið. Hvar er Jóhanna Sigurðardóttir og hvar er Samfylkingin nú þegar þetta samkomulag er brotið? Nú eru fulltrúar Samfylkingarinnar tilbúnir til að taka Ásmundarnefndarsamkomulagið til baka og meira til. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er verið að svíkja svokallað samkomulag sem gert var — það markaði á sínum tíma mikil tímamót til sátta við þá öldruðu (Forseti hringir.) og lífeyrisþegana í landinu?