135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

almannatryggingar.

[15:18]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ekki verið að svíkja neitt samkomulag sem gert hefur verið við eldri borgara. Mér er auðvitað mjög minnisstætt það samkomulag sem hv. þingmaður vitnaði til og gert var sumarið 2006. Það var mikilvægur áfangi í réttindabaráttu eldri borgara og mikilvægur áfangi í því samstarfi sem ríkisstjórnin, þáverandi og núverandi, hefur átt við Samtök eldri borgara. Annar áfangi var tekinn í desembermánuði sl. og því fylgt eftir með lagabreytingum sem hafa verið gerðar hér á Alþingi.

Reiknireglan hvað varðar breytingar á bótum í kjölfar kjarasamninga er sú sama og var í síðustu ríkisstjórn. Hv. þingmaður er kannski búinn að gleyma því. Það er miðað við meðalhækkun launa og síðan, þegar ekki hefur orðið launahækkun en bæturnar hafa hækkað, þá er það auðvitað jafnað út.

Ef kjarasamningar hefðu verið gerðir í desember hefði komið 7,3% hækkun á bætur frá 1. janúar með sama hætti og meðallaunin hækkuðu. Launin hækkuðu ekki neitt 1. janúar. Við ákváðum að hækka bæturnar um þessi rúmlega 3% sem var þá eins konar uppígreiðsla upp í útreikninga varðandi kjarasamningana og þá stóðu eftir þau 4% sem nú hafa verið greidd. Þannig er þetta mál reiknað út. Þetta er fyllilega í samræmi við lögin og framkvæmdin á að vera hv. þm. Guðna Ágústssyni vel kunnug því að þannig var þetta gert öll þau ár sem hann sat í ríkisstjórn.