135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

almannatryggingar.

[15:20]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Því miður höfðu oft staðið deilur við eldri borgara og öryrkja og þarna varð tímamótasátt. Ég man eftir að ég fagnaði þessu sérstaklega sjálfur og taldi að þessu mætti líkja við það að við værum að sættast við foreldra okkar sem ættu allt annað skilið en slíkar deilur. Þetta eru útúrsnúningar af hálfu hæstv. forsætisráðherra.

ASÍ, Öryrkjabandalag Íslands og Landsamband eldri borgara hafa gagnrýnt ríkisstjórnina harðlega fyrir þessa framgöngu og telja það svik á Ásmundarsamkomulaginu, telja það svik. Og það eru menn með fullu viti sem stýra þessum samtökum og segja satt. Þannig að hér er ekki verið að fara rétt að. Það átti að miða við lægstu laun, þau hækkuðu um 18.000 kr. En þessi hópur fékk aðeins 4.000–5.000 kr. hækkun. Þannig að það er verið að svíkja þetta fólk.

Samkomulag var gert árið 2006 og núverandi forsætisráðherra sat þá í stól forsætisráðherra og var nýtekinn við störfum. Þannig (Forseti hringir.) að þetta er ljótur leikur. Ég skil ekki í samfylkingarfólkinu sem hafði hátt á síðasta kjörtímabili og taldi að lengra hefði átt að ganga árið 2006. Hvers vegna er þetta gert nú?