135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að vinna bug á verðbólgu.

[15:26]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Stundum geta hrósyrðin verið tvíbent, ég er beggja blands í því hver áhrifin verða af hrósyrðum hæstv. forsætisráðherra. Ég vil taka þeim vel en segi um leið að mér þykir ráðherrann stundum vera dálítið hrekkjóttur.

Að því slepptu, virðulegi forseti, er kjarni málsins þessi: Við erum í grafalvarlegri stöðu. Við erum með skuldsett heimili á Íslandi sem bera hærri skuldir en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar. Sennilega eru þetta skuldsettustu heimili í allri Evrópu. Verðbólgan er á leiðinni upp og stefnir upp í 13%. Gangi það eftir mun það fara með fjárhag þúsunda heimila. Það mun hækka skuldirnar og greiðslubyrðina af þeim meira en þau ráða við. Það verður því að knýja á um að ríkisstjórnin fari frá orðum til athafna, virðulegi forseti.