135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

umferðaröryggismál á Reykjanesbrautinni.

[15:29]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður hefur lagt fram spurningu um framkvæmdir á Reykjanesbraut, þ.e. kaflanum frá Strandarheiði vestur til Reykjanesbæjar.

Eins og áður hefur komið fram hér þá stöðvaðist það verk vegna gjaldþrots verktaka. Þá þegar hófst Vegagerðin handa við að gera nauðsynlegar mælingar og undirbúa útboð ef samningar næðust ekki við undirverktaka sem þar voru. Samningar náðust við Eykt um að byggja þær tvær brýr sem eftir eru og það þurfti ekki að bjóða út en hins vegar þurfti að bjóða út frágang á veginum sem eftir var, bæði burðarlög og malbikun. Ef ég man rétt verða þau tilboð opnuð á morgun, 8. apríl, og hefjast framkvæmdir vonandi í beinu framhaldi af því.

Að því er mig minnir er talað um að í kringum 15. október verði brautin orðin fullkomlega umferðarhæf út frá öryggissjónarmiðum og öðru þó að eitthvað vanti kannski á lokafrágang með bökkum, sáningu og annað slíkt. Þannig að þetta er nú staðan sem er á þessu verki. Auðvitað hefur þetta tafist og vandræði hafa skapast við það að verktakinn varð gjaldþrota og gat ekki haldið áfram.

Hvað varðar umferðaröryggismálin þá var það mikið rætt fyrir u.þ.b. mánuði. Ég fór þá sjálfur og keyrði þarna um og skoðaði þetta vel. Ég hafði samband við lögreglustjórann á Suðurnesjum eftir þá ferð. Hann sagði mér að þeir hefðu átt mjög gott samstarf við Vegagerðina og allt sem þeir hefðu farið fram á hefði Vegagerðin gert strax og hef ég ekki ástæðu til að rengja það.

Þarna eru vegmerkingar um 50 km hámarkshraða. Þegar ég var þar á ferð keyrðu margir miklu hraðar en það. Við erfiðar aðstæður eins og þarna eru (Forseti hringir.) gildir það náttúrlega að vegfarendur aki varlega og með gát.