135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:02]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Í meginatriðum er ástæðan sú að áætlanir voru umfram það sem síðan var greitt samkvæmt lögum. Bætur voru hækkaðar, ástæðan er ekki sú að þær væru lækkaðar. Ég held að helstu skýringanna sé að leita í því að tekjur jukust mun meira þetta ár en jafnan gerist og þeir sem hugsanlega hefðu fengið greiðslur þarna hafi verið tekjuhærri en gert var ráð fyrir í upphafi.

Það má segja almennt um þessi síðustu ár sem við höfum verið að fjalla um hér að tekjuaukning hjá þjóðinni hefur verið meiri en við höfum að jafnaði gert ráð fyrir. Kaupmáttur hefur aukist meira. Það á við um alla tekjuhópa og það kemur fram í þessum tölum. En ég tel eðlilegt að farið verði nákvæmar yfir þetta í nefndinni þannig að nefndarmenn geti verið vissir um hvað felst í þessum niðurstöðum.