135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:04]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og tek undir það að ég tel nauðsynlegt að fjárlaganefnd fari vandlega ofan í þessa tvo liði og dragi fram skýringar á því hvers vegna svona miklar fjárhæðir standa út af. Það kann að vera alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að tekjuáætlanir elli- og örorkulífeyrisþega fyrir þetta ár hafi verið vanmetnar þannig að þeir hafi haft hærri tekjur en gert var ráð fyrir þegar áætlunin um útgjöld fyrir þetta ár var gerð. Reynist það vera svo þá sýna þessar tölur okkur kannski hina hliðina á peningnum, hvað skerðingar á bótum almannatrygginga vegna tekna hafa verið miklar hjá þessum hópi, hvort sem það eru fjármagnstekjur eða atvinnutekjur, sem ætla má að skýri þá stærstan hlutann af þessu, og hafi þá leitt til þess að bætur þessara hópa urðu þá lægri en menn gerðu ráð fyrir.