135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

lokafjárlög 2006.

500. mál
[16:06]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir ræðuna og framlagningu á frumvarpi lokafjárlaga fyrir árið 2006. Mörgum þykir ef til vill skrýtið að standa hér í apríl 2008 og ræða fjármál rekstrar ársins 2006. Kannski þykir einhverjum það enn þá sérstakara að þar sem skipt var um stjórnarmeirihluta á miðju ári 2007 skuli nýr stjórnarmeirihluti fara yfir þau mál sem tengjast rekstrinum 2006. Svona gerast nú hlutirnir og hæstv. fjármálaráðherra hefur gert hér grein fyrir umræddu frumvarpi og umræddum beiðnum um fjárheimildir. Samkvæmt fjárreiðulögunum eru lokafjárlögin ekkert öðruvísi en fjáraukalög eða fjárlög í því tilliti að verið er að leita heimilda hér hjá Alþingi til að fara fram með fjárveitingar til ákveðinna verkefna. Vissulega eru flest þeirra þannig að þau eru komin vel á veg, annaðhvort í rekstri eða stofnfjárfestingum og verið er að stemma af lokapunktinn í tengslum við ríkisreikning fyrir árið í samræmi við fjárreiðulögin.

Nú hefur fjárlaganefndin fengið ríkisendurskoðanda á sinn fund. Við fáum ríkisendurskoðanda reyndar yfirleitt á annan eða þriðja hvern fund að ég tel en alla vega fengum við hann á fund okkar í nóvember til þess að fara yfir ríkisreikninginn vegna ársins 2006 sem var gefinn út af Fjársýslu ríkisins í júlímánuði 2007. Ríkisendurskoðandi fór vel yfir hann og er hér í umræddu lagafrumvarpi fjallað um af hverju framsetning á ríkisreikningi og lokafjárlögunum er mismunandi. Hægt að staðfesta að gögnin stemma. Ríkisreikningurinn stemmir alveg við umræddar beiðnir og tillögur í frumvarpinu til lokafjárlaga.

Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta, ekki frekar en verið hefur síðastliðin ár. Það má kannski frekar segja sem svo að við munum skoða málið enn frekar í fjárlaganefnd þegar við tökum þetta fyrir. Ég geri ráð fyrir því að við tökum frumvarpið strax fyrir í næstu viku og fáum þá fulltrúa fjármálaráðuneytisins annars vegar og hins vegar Ríkisendurskoðunar til þess að fara yfir þessi mál með okkur og velta upp spurningum líkt og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom hér að um ýmsa þætti sem við viljum skoða.

Frumvarpið er mjög skýrt. Á bls. 69 í athugasemdakafla þess er farið yfir söguna, hvað flutt var frá 2005 yfir til 2006, alls 17,5 milljarðar. Í fjárlögum fyrir 2006 eru það 315 milljarðar og í fjáraukalögum eru afgreiddir 19,5 milljarðar. Síðan eru hér fjárheimildir upp á 962 milljónir og staðan í árslok er reiknuð út á grundvelli þess að ríkisreikningurinn er með 340 milljarða í rekstrargrunninum en heimildirnar eru upp á 363 milljarða. Þar af leiðandi er staðan í árslok 12,8 milljarðar. Sundurliðunina á þessum 962 milljónum má sjá í sundurliðun I á bls. 3 í frumvarpinu en sundurliðun á árslokastöðunni, 12,8 milljarðarnir, er sýnd á bls. 73 þar sem afgangsheimildir hvers og eins ráðuneytis auk umframgjalda eru dregnar fram, þær eru samtals 12,8 milljarðar. Í þeirri samantekt, tengt sundurliðun II varðandi ráðstöfun og stöðu fjárheimilda í árslok, er lagt til í samræmi við 2. gr. að felldir séu niður 5,6 milljarðar en þeir eru sundurliðaðir á bls. 4. Rétt er að það sé skoðað til hlítar líkt og umræddar 962 milljónir og það var það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var að leita eftir. Ég tel hins vegar ekki að menn ætli að leggja hér til breytingar á þessu í fjárlaganefndinni. Hins vegar er hægt að tengja þetta umræðunum um framkvæmd fjárlaga líkt og hæstv. fjármálaráðherra kom að og fór yfir. Þar af leiðandi skiptir það okkur miklu máli að ræða um lokafjárlögin í sambandi við þá umræðu og tengja við það ferli sem bæði fjárlaganefndin og fjármálaráðuneytið hafa talað fyrir.

Á bls. 76 í frumvarpinu er greint frá því hvernig ráðstafanir á stöðu fjárheimilda í árslok eru framreiknaðar og hvernig þær byggja á umræddum viðmiðunarreglum þar sem menn skoða hvort útgjöldin eru bundin af lagaákvæðum t.d. eða hvort þau eru á ábyrgð tiltekins stjórnsýsluaðila. Það má einnig segja að sama gildi um liði þar sem útgjöldin ráðast yfirleitt af hagrænum eða reikningshaldslegum þáttum og lúta ekki að fjármálastjórn tiltekins aðila svo sem lífeyrisskuldbindingar og afskriftir skattkrafna. Þetta skiptir verulegu máli í þessari umræðu og tengist andsvari sem fram kom áðan. Oft er um reiknaðar stærðir að ræða og þar af leiðandi endurspeglast fjárheimild í árslok á vinnureglum.

Virðulegur forseti. Ég vil nota tækifærið fyrir hönd fjárlaganefndar og þakka fjármálaráðuneytinu og hæstv. fjármálaráðherra fyrir þá miklu vinnu sem er lögð í umrætt frumvarp. Það er alltaf þannig að hvort sem um er að ræða fjárlagafrumvarp, fjáraukalagafrumvarp eða lokafjárlagafrumvarp að það krefst mikillar vinnu. Ég þakka fyrir þá miklu vinnu sem unnin hefur verið uppi í fjármálaráðuneyti vegna þessa og vonast til þess að geta átt gott samstarf í fjárlaganefndinni hér eftir sem hingað til þegar við tökum þetta til efnislegrar meðferðar.