135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[16:15]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt.

Í frumvarpi þessu er að finna tillögur um ýmsar breytingar á lögum um tekjuskatt sem flestar tengjast yfirlýstum aðgerðum ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar sl. Þar kemur fram að meginmarkmið ríkisstjórnarinnar er stöðugleiki í efnahagsmálum, enda stuðli hann að auknum hagvexti og velferð til langframa. Kjarasamningar til þriggja ára sem grundvallist á hóflegum kauphækkunum og verulegri hækkun lægstu launa stuðli að því að það markmið náist auk þess að stuðla að auknum jöfnuði og því séu stjórnvöld tilbúin til að grípa til víðtækra aðgerða, þ.m.t. á sviði skattamála, í því skyni að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum markaði.

Í fyrsta lagi er lagt til að persónuafsláttur hækki um samtals 7.000 kr. á mánuði eða 84.000 kr. á ársgrundvelli umfram almenna verðuppfærslu í þremur áföngum. Fyrsti áfanginn kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2009 þegar persónuafslátturinn við staðgreiðslu tekjuskatts hækkar um 2.000 krónur á mánuði eftir almenna verðlagsuppfærslu, eða um 24.000 kr. samtals á árinu. Sama hækkun verður í öðrum áfanga sem kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2010. Í þriðja áfanga er hækkun persónuafsláttar eftir verðlagsuppfærslu 3.000 kr. á mánuði, eða 36.000 kr. samtals á ári og kemur hún til framkvæmda í ársbyrjun 2011. Áhrif þessara breytinga á persónuafslætti á tekjuhlið ríkissjóðs er talin nema nálægt 15 milljörðum kr. á ári þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Þar af koma um 4,5 milljarðar kr. fram á næsta ári.

Í öðru lagi er lögð til lækkun á tekjuskatti hlutafélaga og einkahlutafélaga úr 18% í 15%. Hlutfall tekjuskatts hjá öðrum lögaðilum, m.a. sameignarfélögum, lækkar samsvarandi, eða úr 26% í 23,5%. Lækkunin tekur gildi frá og með rekstrarárinu 2008 og kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009. Ýmsum vandkvæðum er bundið að meta áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs, ekki síst vegna þeirra miklu umbrota sem nú eiga sér stað í íslensku efnahagslífi, en samkvæmt lauslegri áætlun gæti sú fjárhæð numið allt að 5 milljörðum kr. á ári.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á barnabótum, sem koma til framkvæmda í tveimur áföngum. Þannig er lagt til að viðmiðunarmörk tekna við álagningu barnabóta á þessu ári vegna tekna á árinu 2007 verði hækkuð úr u.þ.b. 100 þús. kr. á mánuði í 120 þús. kr. fyrir einstæða foreldra og úr 200 þús. kr. á mánuði í 240 þús. kr. fyrir hjón og sambýlisfólk. Auk þess er lagt til að tekjuskerðingarhlutföll vegna annars og þriðja barns verði lækkuð um 1%, það er úr 6% og 8% í 5% og 7%. Sú breyting kemur einnig til framkvæmda á þessu ári. Seinni áfangi breytingarinnar kemur hins vegar til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2009 vegna tekna ársins 2008, en þá munu tekjuviðmiðunarmörk einstæðra foreldra hækka í 150 þús. kr. á mánuði og hjóna í 300 þús. kr. á mánuði. Heildaráhrif þessara breytinga á útgjaldahlið ríkissjóðs eru talin nema allt að 2 milljörðum kr. á ári, þar af um 1,2 milljörðum kr. á þessu ári.

Í fjórða lagi inniheldur frumvarpið tillögu um 35% hækkun á eignarviðmiðunarmörkum vaxtabóta sem lagt er til að komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á þessu ári. Útgjaldaáhrif þeirrar breytingar eru áætluð um 700 millj. kr. á ári.

Þegar allt er lagt saman er reiknað með að þær breytingar sem fjallað er um hér að framan skerði afkomu ríkissjóðs um 23 milljarða kr. á ársgrundvelli þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda. Áhrifin á þessu ári eru talin nema tæpum 2 milljörðum kr.

Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu að breytingum á ákvæðum tekjuskattslaganna um skattalega meðferð á gengishagnaði og gengistapi. Samkvæmt gildandi lögum skal færa gengismismun, það er gengishagnað að frádregnu gengistapi, að fullu til tekna eða gjalda á viðkomandi reikningsári. Tillaga frumvarpsins felur það í sér að gengismismun verði dreift með jafnri fjárhæð á þrjú reikningsár, það er það reikningsár þegar mismunur myndast og næstu tvö þar á eftir. Til lengra tíma litið hefur þessi breyting engin áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs, en áhrif milli einstakra ára kunna að verða einhver og þá bæði til hækkunar og lækkunar. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að afdráttarskattur af arðgreiðslum til erlendra aðila með takmarkaða skattskyldu verði lækkaður úr 15% í 10% til samræmis við innlenda aðila í því skyni að skapa jafnræði á grundvelli EES-samningsins. Þessi breyting er talin hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Að lokum er sú tillaga lögð til að sama regla gildi um staðaruppbætur útsendra starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og staðaruppbætur fastráðinna, settra eða skipaðra starfsmanna við sendiráð Íslands og hjá ræðismönnum, þ.e. að þær verði frádráttarbærar frá tekjum við álagningu tekjuskatts. Sem stendur eru ákvæði um skattalega meðferð launa hjá umræddum starfsmönnum í lögum nr. 43/1981, um Þróunarsamvinnustofnun Íslands, en þau lög munu falla úr gildi með nýjum lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Jafnframt er almenna reglan sú að kveðið sé á um skattalega meðferð hvers kyns tekna í lögum um tekjuskatt en ekki í sérlögum. Áhrif þessarar breytingar á afkomu ríkissjóðs eru óveruleg.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.