135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[16:45]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Nú hafa skattar á fyrirtæki verið lækkaðir úr 18% niður í 15%. Í dag ræddum við um að lækka eigi skatta um 100 milljarða af fyrirtækjum með þeim breytingum sem við fjölluðum um í dag, sem ég er alls ekki sammála.

Mig langar að koma inn á tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það hallar verulega á sveitarfélögin í landinu. Mörg þeirra eiga í erfiðleikum í rekstri á þeim útsvarstekjum sem þau fá. Ég hefði haldið að þar þyrfti að taka til hendinni og stokka upp fyrirkomulagið með það í huga að bæta hag sveitarfélaga. Ríkisstjórnin gortar af því að ríkissjóður sé nánast skuldlaus en skiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga þarf að endurskoða að mínu mati og það sem fyrst. Skattar láglaunafólks hafa hækkað en lækkað hjá þeim tekjuhæstu með því að hátekjuskatturinn var tekinn af á sínum tíma fyrir utan það að aldraðir og öryrkjar hafa ítrekað verið sviknir.

Fyrir fimm árum var ekki staðið við samkomulag sem gert var við öryrkja rétt fyrir kosningar. Þar vantaði 500 millj. kr. upp á og þá hafði Samfylkingin hátt og gagnrýndi þáverandi ríkisstjórn harkalega fyrir þau vinnubrögð. En mér sýnist Samfylkingin leggja það af mörkum núna að svíkja láglaunafólk, aldraða og öryrkja auk þess að slá af 100 milljarða skatttekjur af fyrirtækjum og leggja til með þessu frumvarpi að lækka skatttekjur um 5 milljarða kr. Þetta eru sorgleg vinnubrögð, sérstaklega eins og Samfylkingin talaði fyrir síðustu kosningar, á síðasta kjörtímabili og reyndar lengur, um misskiptinguna, að hún skuli standa að þessu frumvarpi núna og leggja hlutfallslega hærri álögur á láglaunafólk, aldraða og öryrkja og verja fyrirtækin í landinu. Jafnvel sægreifar sem hafa fengið gefins kvóta og selja hann dýrum dómum fá niðurfellda skatta af sölunni. Það er ömurlegt hlutskipti svokallaðs jafnaðarmannaflokks að taka þátt í slíku.