135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[16:49]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt. Það fjallar að meginhluta um skattalækkun og ég hlýt náttúrlega að gleðjast yfir því. Reyndar ætla ég, áður en ég byrja á að gleðjast yfir skattalækkunum, að benda á skattaforréttindi sem er verið að víkka út. Það eru forréttindi starfsmanna alþjóðastofnana. Það er ótrúlegt ákvæði en það gildir um allan heim að sendimenn og starfsmenn alþjóðastofnana eru meira og minna skattfrjálsir, sem er náttúrlega óeðlilegt. Mér finnst að það fólk eigi að borga til þjóðfélagsins eins og aðrir. Þeir njóta vegakerfis, menntakerfis og heilbrigðisþjónustu o.s.frv. þannig að ég hef aldrei skilið af hverju þetta skattfrelsi er í gangi. Hér á að víkka þetta yfir á starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og ég geri töluverðar athugasemdir við það enda er það ekki í samræmi við kjarasamninga.

Í þessu frumvarpi felst helst hækkun á persónuafslætti um 7 þús. kr. Hún byrjar með 2 þús. kr., þá koma 3 þús. kr. og áfram upp í 7 þús. kr. Það er í sjálfu sér ágætt utan þess að ég hefði frekar lækkað prósentuna. Persónuafslátturinn kemur sem krónutala fyrir nánast alla Íslendinga sem borga skatta á annað borð. Þar fá allir 2 þús. kr. strax og frumvarpið er samþykkt og þá fá menn meira í vasann, allir jafnt. Það má segja að það sé gott fyrir þá sem hafa lágar tekjur og þeir fá hlutfallslega meira. En um leið er ekki komið í veg fyrir þá fátæktargildru sem kom einmitt fram í umræðu um ASÍ-tillögurnar, að láta þennan persónuafslátt deyja út við ákveðnar tekjur. Þegar menn höfðu meiri tekjur hvarf æ stærri hluti í skatta og þegar þeir bættu stöðu sína um þúsundkall fór allt að því helmingurinn í skatta, sem bjó til það sem menn hafa kallað fátæktargildrur. Menn festust í ákveðnum tekjum og það var enginn hvati til að bæta þær, hvorki með menntun, með því að taka að sér ábyrgð eða eitthvað slíkt. Þeim tillögum var sem betur fer hafnað.

Eftir sem áður stöndum við frammi fyrir því að lækkun á prósentu hefði hvatt fólk til að afla sér hærri tekna og kannski konur líka. Þar hefði komið hvatning um að þær öfluðu sér meiri menntunar, tækju að sér ábyrgðarstöður og slíkt. Ég hefði frekar viljað sjá þá útfærslu en það er mikill vilji til að gera vel við þá sem eru illa settir og helst halda þeim þar, sýnist mér, láta þá vera illa setta áfram.

Lækkun á tekjuskatti til hlutafélaga úr 18% í 15% er mjög góð og menn gera ráð fyrir að hún kosti 6 milljarða kr. En ætli skattstofninn stækki ekki eins og hann hefur gert hingað til? Tekjur ríkissjóðs þurfa því kannski ekki að minnka. Þær hafa vaxið hingað til þegar skatturinn hefur verið lækkaður. Þetta er afskaplega kvikur stofn og auðvelt að eyða hagnaði fyrirtækja. Ég skal taka það að mér bara hér og nú, ef einhver fyrirtæki eru í vandræðum með hagnaðinn get ég eytt honum á tveim vikum, rétt fyrir áramót. Það er mjög kvikur skattstofn. Hann getur líka skroppið til útlanda mjög hratt og vel … (Gripið fram í.) já, sumir bjóðast til að gera það enn hraðar. Þessi kviki skattstofn getur leitað til landa þar sem skattprósentan er lág og kannski fáum við til landsins stórfyrirtæki sem laga stöðu ríkissjóðs þannig að staðan batni frekar en að versna við þessa lækkun.

Hæstv. fjármálaráðherra, skattheimtumaður landsins, flytur hér síðan tillögur um breytingar á barnabótum, merkilegt nokk. Það er sem sagt félagslegt atriði, hreint út í gegn. Ég hef aldrei skilið af hverju barnabætur eru í skattalögum, það er eiginlega mjög skrýtið. Hér er sem sagt fjármálaráðherra að leggja til að laga stöðu barnafólks í landinu, fjölskyldna. Það er svo sem ágætt. Það er verið að minnka prósentur, minnka þessa frægu fátæktargildru eða mildar hana. Það eru minni líkur til að menn festist í fátæktargildru þegar skerðingin minnkar um 1%.

Svo er verið að hækka eignarviðmiðunarmörkin í vaxtabótunum. Vaxtabótakerfið er mjög skrýtið. Fólk með mjög háar tekjur og dýrar eignir getur fengið vaxtabætur, bætur heitir það víst. Ríkið er að hjálpa einhverjum sem ætti að vera hjálparþurfi. En með þessum tillögum er lagt til að fólk jafnvel með 17 milljónir í nettóeignir, þ.e. sem á 17 milljónir í eignum umfram skuldir, fái bætur frá ríkinu. Þetta eru viðbrögð við því hve mikið fasteignaverð hefur hækkað. Margir missa vaxtabæturnar vegna þess að þeir eru orðnir svo ríkir. Eignirnar hafa hækkað langt umfram skuldir. Skuldirnar hafa hækkað eins og verðlag en eignirnar umfram það og bilið á milli er nettóeign mannsins. Þá þarf að hækka viðmiðunina, að mati þeirra sem gerðu þessa samninga.

Það er eitt og annað sem maður getur gert athugasemd við en í heildina hlýt ég að gleðjast yfir skattalækkunum, sérstaklega skattalækkun á hagnað fyrirtækja. Ég geri ráð fyrir að það muni ekki kosta ríkissjóð eins mikið og menn búast við. Þar fyrir utan tel ég að menn eigi ekki að líta á það sem kostnað ríkissjóðs þegar tekjur minnka, þá er skattgreiðandinn látinn borga minna.