135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

tekjuskattur.

515. mál
[16:56]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir málefnalega umræðu en það verður að segja að sjónarmiðin sem hafa komið fram hafa verið ansi misjöfn og mismunandi skoðanir komið fram í ræðupúltinu hvað frumvarpið varðar.

Hv. þm. Pétri Blöndal finnst margt skrýtið í þessu, sérstaklega að hafa bótakerfi í skattinum. Það er sjálfsagt heilmikið til í því hjá honum. Þannig höfum við haft það talsverðan tíma og er ekki tímabært að víkja frá því núna.

Ég verð að leiðrétta hv. þingmann um eitt atriði. Hann nefndi starfsmenn Þróunar- og samvinnustofnunar Íslands en þar er ekki verið að útvíkka skattfríðindin. Þeir hafa haft þessi skattfríðindi en hins vegar hafa verið sérlög um þau. Verði þessi breyting samþykkt verða þau í skattalögunum eins og þau fríðindi er varða starfsmenn utanríkisþjónustunnar.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur mestar áhyggjur af tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og stöðu sveitarfélaganna. Út af fyrir sig má taka undir ýmislegt af því sem hann kom inn á en hins vegar er staðreyndin sú að síðustu árin, í þessu góðæri sem við getum sagt að við höfum búið við, hafa tekjur sveitarfélaganna aukist meira en tekjur ríkisins. Vandi sveitarfélaganna felst því ekki í því að tekjuaukning þeirra hafi ekki verið í sama dúr og tekjuaukning ríkisins.

Hv. þm. Ögmundi Jónassyni finnst að ríkisstjórnin mjatli hlutunum í litlum áföngum til kjósenda og Samfylkingin ekki að standa við kosningaloforð. Honum finnst þetta allt heldur lítið í sniðum, ef ég hef skilið hann rétt. Hann átti von á öðru.

Það er öfugt komið fyrir hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni. Hann ber reyndar fyrir sig Seðlabankann og telur að of mikið sé gert og að þetta muni hafa neikvæð áhrif á efnahagsþróunina, sérstaklega á verðbólguna. Hann hefði viljað gera þessa hluti öðruvísi og undir það tók hv. þm. Ögmundur Jónasson, að láta þetta ekki ganga upp allan skalann. Hv. þm. Pétur Blöndal svaraði þeim atriðum sem rædd voru í kringum jólin þegar tillögur ASÍ um svipaða hluti voru til umfjöllunar.

Varðandi það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði og vitnaði í Seðlabankann þá er líka mikilvægt fyrir stöðugleika í efnahagslífinu og til að ná niður verðbólgunni að friður sé á vinnumarkaði og samningar í gildi á milli aðila vinnumarkaðarins. Ég tel að það sé ljóst og hafi löngum tíðkast, kannski um of, að ríkisstjórnin hafi viljað leggja nokkuð af mörkum til þess.

Eins og fram hefur komið er það afstætt hvað telst mikið eða lítið í þessu samhengi en í öllu falli hefur það sjónarmið komið fram, sem má auðvitað kenna við Seðlabankann, að þetta sé of mikið og muni valda aukinni verðbólgu. Því er til að svara að stærstur hluti þess sem hér er um að ræða kemur til framkvæmda á næsta og þarnæsta ári þótt vissulega komi hluti til framkvæmda á þessu ári. Þar af leiðandi ættu áhrif þessa ekki að hafa svo mikil áhrif á verðbólguþróunina á þessu ári, miklu frekar á næsta og þarnæsta ári. Það verður að segja að ýmsar blikur eru á lofti hvað það varðar. Erfitt er að spá um það á þessu stigi málsins og hafa verið uppi kröfur um að gæta þurfi að kaupmætti einstaklinga á því tímabili. Ég held þess vegna að það sem hv. þingmaður hafði áhyggjur af sé ekki stærsta málið þegar kemur fram á næsta og þarnæsta ár. Þá munum við hugsanlega þurfa að hafa áhyggjur af öðrum málum, í öllu falli er vandséð að við munum glíma við þensluvanda og aukna eða mikla verðbólgu á árunum 2009 og 2010. Það gæti því miður orðið þveröfugt

Hv. þingmaður benti líka á það sem hann taldi vera misræmi, annars vegar í greinargerðinni og hins vegar fylgiskjalinu. Ég hef ekki getað skoðað það vandlega af því að ég hef fylgst með umræðunum en sjálfsagt verður farið yfir það í nefndinni. Það sem mér dettur helst í hug sem skýring á þessu misræmi, sem ekki virðist stórvægilegt, er munurinn á milli þeirra verkefna sem þessar tvær skrifstofur sem vinna þessa tvo þætti fjalla um, þ.e. að Efnahagsskrifstofna vinnur að þjóðhagsáætlun á svokölluðum þjóðhagsgrunni, Fjárlagaskrifstofan gerir fylgiskjalið, sem er kostnaðarmatið, og vinnur þetta á fjárlagagrunni. Það er munur á skilgreiningum á efnisþáttum þar á milli. Það gæti skýrt þennan mun. En að sjálfsögðu er eðlilegt að nefndin fari frekar í þetta og fái frekari upplýsingar úr ráðuneytinu.