135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

528. mál
[17:32]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 129/1997, með síðari breytingum, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Í frumvarpinu er lagðar til tvenns konar breytingar á 36. gr. laganna sem fjallar um fjárfestingar lífeyrissjóða. Í fyrsta lagi er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf. Með því er átt við að lífeyrissjóðir geti yfirfært verðbréf tímabundið til annarra aðila, þ.e. lántaka, á grundvelli samnings þar um. Er lántaki skuldbundinn til að skila bréfunum til baka, annaðhvort að kröfu lífeyrissjóðs eða að tilteknum tíma liðnum. Lagt er til að heimild lífeyrissjóða til þess að lána verðbréf verði bundin tilteknum skilyrðum til lágmörkunar áhættu. Í fyrsta lagi er mælt fyrir um að verðbréf verði eingöngu lánuð til lántaka sem hafa starfsleyfi eða heimild til þess að stunda verðbréfaviðskipti á Evrópska efnahagssvæðinu eða fyrir tilstilli viðurkenndrar verðbréfamiðstöðvar eða viðurkenndrar kauphallar.

Í öðru lagi er sett skilyrði um að fullnægjandi tryggingar liggi til grundvallar samningi, annaðhvort í formi reiðufjár eða annarra verðbréfa. Tryggingar þurfa að lágmarki að vera jafnverðmætar verðmæti þeirra verðbréfa sem eru lánuð. Þá þykir rétt að lánveitingar af þessu tagi nemi ekki hærri fjárhæð en sem nemur 25% af hreinni eign lífeyrissjóðsins. Þessi breyting er í samræmi við önnur ákvæði greinarinnar og gengur ekki gegn þeim almennu varúðarsjónarmiðum sem liggja að baki ákvæðum um fjárfestingar lífeyrissjóða.

Einnig er lagt til að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í verðbréfum sem eru skráð eða eftir atvikum gefin út af aðilum í EES-ríkjum með sama hætti og aðilum innan OECD. Tillagan leiðir af samningsskuldbindingum okkar samkvæmt EES-samningnum.

Í frumvarpinu eru að auki lagðar til nokkrar breytingar sem stefna að auknum sveigjanleika við ráðstöfun lífeyrisréttinda og greiðslur ellilífeyris. Lagt er til að svigrúm lífeyrissjóðs til þess að gefa sjóðfélögum kost á að flýta eða fresta töku lífeyris verði aukið úr fimm árum í allt að tíu ár talið frá þeim degi þegar sjóðfélagi getur hafið töku lífeyris samkvæmt almennum reglum. Talsvert er um að einstaklingar eigi lífeyrisréttindi í fleiri en einum lífeyrissjóði. Þessi breyting gerir lífeyrissjóðum kleift að bjóða sjóðfélögum sem eiga réttindi í fleiri en einum sjóði að hefja töku lífeyris úr báðum eða öllum sjóðunum á einum tímapunkti. Þá er lagt til að heimildir sjóðfélaga og maka hans, eftir atvikum fyrrverandi maka, til þess að ákveða með gagnkvæmum hætti að verðmæti uppsafnaðra ellilífeyrisréttinda þeirra skuli allt að hálfu renna til hins verði rýmkaðar þannig að svigrúm til slíkrar ákvörðunar verði aukið í tíma. Það er skilyrði í gildandi lögum að slík ákvörðun liggi fyrir í síðasta lagi sjö árum áður en taka lífeyris geti fyrst hafist. Heimildin hefur lítið verið notuð og því er lagt til að heimildin verði rýmkuð þannig að hún gildi uns taka lífeyris hefst en þó eigi lengur en til 64 ára aldurs.

Enn fremur er lagt til að tekinn verði af allur vafi um rétt erlendra ríkisborgara til endurgreiðslu iðgjalda vegna öflunar lífeyrisréttinda í séreign þegar þeir flytjast úr landi. Rétt þykir að sömu endurgreiðsluheimildir gildi í tengslum við lífeyrisréttindi í séreign og gilda um lífeyrisréttindi í sameign í 4. mgr. 19. gr. laganna.

Að lokum eru lagðar til nokkrar smærri breytingar er lúta að tilkynningarskyldu ýmiss konar, svo sem heimildir til rafrænna skila á yfirlitum til sjóðfélaga að þeirra ósk.

Frí forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.