135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

528. mál
[17:48]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski óþarfi að hafa um þetta mörg orð núna. Við heyrum að það er vilji til að taka málið til mjög rækilegrar skoðunar og umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd þingsins.

Hvað varðar síðasta þáttinn, vilja hæstv. fjármálaráðherra til að koma skipulegum böndum á eitthvað sem þegar er fyrir hendi, þ.e. skortsölur, þá kann það að vera góðra gjalda vert. En hann sagði jafnframt, og ég held að það sé rétt hjá honum, að með þessu móti er verið að stuðla að því að markaðir af þessu tagi verði til og um það hef ég ákveðnar efasemdir. Er það ekki einmitt út af þessari braut sem við ætlum að reyna að hverfa og þá ekki síst með lífeyrissjóði landsmanna?