135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

skráning og mat fasteigna.

529. mál
[18:07]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um skráningu og mat fasteigna og fleiri lögum.

Lagabreytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu byggja að mestu á niðurstöðu starfshóps sem fjármálaráðuneytið skipaði samkvæmt tilnefningu ráðuneyta, sveitarfélaga og hagsmunaaðila til að fara yfir fasteignaskráningu og málefni er sneru að fasteigna- og brunabótamati. Að hluta til byggja þær einnig á sjónarmiðum sem komu fram í nefndaráliti efnahags- og skattanefndar við meðferð nefndarinnar vegna frumvarps um sama efni á síðasta ári.

Þær breytingar sem lagðar eru til eru í meginatriðum eftirfarandi: Með frumvarpinu eru í fyrsta lagi lagðar til ákveðnar breytingar á aðferðum og verklagi sem notaðar eru við skráningu og auðkenni fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins. Í því felst meðal annars að gerðar verði breytingar á auðkennisnúmerum fasteigna sem Fasteignamat ríkisins notar við starf sitt, sveitarfélögum verði veitt meira svigrúm til að fullskrá upplýsingar í Landskrá fasteigna, einfaldara verði að stofna nýja fasteign í Landskrá fasteigna og að upplýsingar um fjárhæð fasteignamats liggi fyrir fyrr á árinu en samkvæmt núgildandi lögum þó gildistími þess breytist ekki.

Í öðru lagi eru með frumvarpinu lagðar til mikilvægar breytingar á aðferðafræði við ákvörðun fasteignamatsins á þann hátt að tekið verði upp árlegt endurmat allra fasteigna landsins í stað framreiknings eins og nú er. Árlegt endurmat fasteigna byggist að mestu leyti á raunverulegu verðmæti eigna út frá fyrirliggjandi kaupsamningum og þykir mun nútímalegri aðferð við mat fasteigna og gefa réttari niðurstöðu en framreikningar fasteignamats.

Í þriðja lagi er með frumvarpinu lagt til að lögfest verði að málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga gildi ekki við endurmat á grundvelli 30. gr. laganna, þ.e. um frummat fasteigna, og 31. gr., þ.e. um endurmat einstakra eigna að frumkvæði Fasteignamats ríkisins. Meginástæður þessa eru þær að við frummat samkvæmt 30. gr. er ákvörðun um mat almennt byggð á tilteknum hlutlægum forsendum sem berast frá byggingafulltrúa og að frumkvæði að endurmati einstakra eigna samkvæmt 31. gr. er oftast komið frá eiganda sjálfum. Lagt er til að sama reglan gildi varðandi málsmeðferð við álagningu brunabótamats. Borgurunum er hins vegar tryggður rúmur réttur til að óska endurskoðunar á ákvörðun Fasteignamatsins auk þess sem þær ákvarðanir eru kæranlegar til sérstaks kærustjórnvalds, yfirfasteignamatsnefndar.

Í fjórða lagi er með frumvarpinu lagt til að heiti Fasteignamats ríkisins verði breytt í Fasteignaskrá Íslands enda lýsir það heiti starfseminni mun betur, enda verkefni hennar orðin mun fjölbreyttari en mat fasteigna.

Í fimmta lagi eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á fjármögnun Fasteignamats ríkisins. Meginefni breytinganna felst í að þeir sem hagsmuni hafa af skráningu og notkun upplýsinga úr Landskrá fasteigna greiði fyrir rekstur skrárinnar. Er það í samræmi við fyrirliggjandi nefndarálit efnahags- og skattanefndar. Stærstu notendur fasteigna- og brunabótamats eru sveitarfélög vegna álagningar gjalda og vátryggjendur og húseigendur vegna brunatryggingar fasteigna. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sveitarfélögin greiði fyrir afnotin eins og verið hefur auk þess sem lagt er til að nýtt gjald leggist á vátryggingarfélögin vegna afnota af brunabótamati stofnunarinnar. Bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fjármálafyrirtækja eiga fulltrúa í þriggja manna stjórn Fasteignamats ríkisins. Samkvæmt frumvarpinu er stjórn stofnunarinnar falið að gera árlega tillögur að gjaldskrá stofnunarinnar sem endurspegli kostnað einstakra rekstrarþátta í heildarkostnaði stofnunarinnar og þau gjöld sem innheimt verða á grundvelli hennar. Í samræmi við það sjónarmið að þeir sem hagsmuni hafa af notkun upplýsinga úr skránni greiði fyrir rekstur skrárinnar er jafnframt lagt til að gjöld vegna rafrænna veðbandayfirlita renni til Fasteignamats ríkisins í stað ríkissjóðs eins og nú er. Að lokum er lagt til að stofnuninni verði heimilað að taka upp sérstakt skráningargjald nýrra fasteigna. Er þar um að ræða hóflegt gjald sem innheimt yrði í fyrsta sinn sem fasteign er skráð í Landskrá fasteigna. Slíkt gjald er almennt innheimt við nýskráningu í aðrar sambærilegar opinberar skrár eins og bifreiðaskrá og skipaskrá.

Í sjötta og síðasta lagi eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem nauðsynlegar eru vegna breytinga á umræddu frumvarpi.

Frú forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umræðu að aflokinni þessari umræðu.