135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst aðeins að lokaorðum hv. þm. Péturs H. Blöndals um að menn eigi ekki að nota yfirdrátt. Ég er alveg sammála því. Menn eiga ekki að gera það hvort sem um er að ræða einstaklinga eða fyrirtæki, ef menn fá nokkru um það ráðið. Ég hefði haldið að í flestum tilvikum sé það nokkuð sem einstaklingar og fyrirtæki geri af nauðung fremur en vali.

Hér hefur farið fram ágæt umræða um stimpilgjöldin og um álögur sem almennt hvíla á húsnæðiskaupendum. Öllum ber saman um að þær séu óhóflega miklar. Menn hafa verið nokkuð sammála um að stimpilgjaldið sé að sumu leyti óheppilegur skattur, ósanngjarn skattur jafnvel. Ég horfi á það í víðara samhengi, horfi á þær álögur sem almennt eru lagðar á húsnæðiskaupendur og staðnæmist ekkert síður við vextina og vaxtakjörin en gjöldin sem renna til ríkisins. Annars vegar erum við að ræða um álögur sem renna inn í fjármálakerfið og hins vegar um álögur sem renna inn í ríkissjóð. Þá erum við að sjálfsögðu komin að miklu stærra samhengi og þurfum að skoða hvað rennur til húsnæðiskaupenda á móti, vaxtabætur og annar stuðningur. Við þurfum að skoða kerfið í heild sinni. Við þurfum að sjálfsögðu líka að skoða hvaða áhrif þetta hefur á húsnæðismarkaðinn, hvort þetta veldur því að viðskipti örvast og þensla eykst eins og við heyrum frá ýmsum aðilum.

Mér fannst málflutningur hv. þm. Jóns Magnússonar vera sannfærandi. Hann telur að svo verði ekki eða gerir alla vega ekki mikið úr þeirri hættu. Þar talar maður sem er þaulkunnugur fasteignamarkaði og neytendamálum almennt. Ég staðnæmist við þau varnaðarorð hans að það geti valdið erfiðleikum hvað eftirlit varðar að aðgreina markaðinn að því leyti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Einvörðungu þeir sem eru að kaupa í fyrsta skipti eiga að njóta niðurfellingar á stimpilgjöldum. Þar erum við að tala um fjórðung af fasteignaviðskiptunum samkvæmt upplýsingum sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu. Hv. þm. Jón Magnússon veltir vöngum yfir því hvort verið sé að búa til óþarflega mikið og hugsanlega stirt eftirlitskerfi og hvort af þeim sökum sé ekki rétt að stíga skrefið til fulls þegar það er gert.

Ég velti því fyrir mér við umræðuna, þó ég kunni ekki nein svör við því hvað heppilegt er í því efni, hvort heppilegri leið sé að færa stimpilgjaldið niður, að lækka prósentuna. Stimpilgjaldið nemur núna 1,5% af heildarupphæð. Það eru umtalsverðir peningar. Þegar um er að ræða íbúð sem kostar 20 millj. kr., eins og hv. þm. Jón Magnússon nefndi, eru það um 300 þús. kr. Þetta telur og fyrir einstakling sem er með 300 þús. kr. á mánuði í laun erum við að tala um heil mánaðarlaun sem fara þá í það að standa straum af stimpilgjaldinu.

Hæstv. forseti. Ég er fyrst og fremst að vekja máls á þáttum sem hafa komið fram í umræðunni. Hvað varðar pólitíska vinkilinn þá er eitt kannski svolítið umhugsunarvert. Við ræðum hér frumvarp sem tekur á fjórðungi stimpilgjalda en jafnframt fjórðungi kosningaloforða Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Það speglar ágætlega efndirnar á kosningaloforðum ríkisstjórnarflokkanna til þessa. Það er verið að smámjatla þessum loforðum í kjósendur. Bæði Sjálfstæðisflokkur og Samfylking, eftir því sem ég man best, og hér hefur verið rifjað upp, lofuðu því að afnema þessi gjöld á kjörtímabilinu, sem er þó ekki liðið. En við erum engu að síður hugsanlega að stíga skref sem ætti að taka á annan hátt og ég spyr: Hefur það komið til skoðunar að fara þá leið að lækka stimpilgjaldið verulega, að taka áfangana í þeim skrefum í staðinn fyrir að horfa einvörðungu til þeirra sem eru að kaupa í fyrsta skipti. Ég hef ekki neinar ákveðnar skoðanir á því en ég tel að við eigum að skoða þá leið til jafns við þá sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.