135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[18:53]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Mér þótti nú ánægjulegt að heyra að hæstv. fjármálaráðherra skyldi lýsa því yfir að hann tæki það sárt að valda ágætum flokksfélaga sínum hv. þm. Jóni Gunnarssyni vonbrigðum. Hann minntist hins vegar ekkert á að það tæki hann sárt að valda mér vonbrigðum. Þvert á móti virtist hann kætast hið mesta og bar fyrir sig að sá sem hér stendur hefði ekki fylgst grannt með þeim umræðum sem hér voru í dag en það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra, ég fylgdist vel með skattaumræðunni og því sem þar fór fram.

Það er nú þannig að menn meta hlutina með misjöfnum hætti. Ég get ekki séð að það sem Seðlabankinn heldur fram varðandi þensluna í þjóðfélaginu sé á rökum reist. Í hinu alþjóðlega efnahagsumhverfi sjáum við að það er ekki þensla sem er í spilunum og við höfum verið að tala um að við séum hluti af hinu alþjóðlega efnahagsumhverfi.

Í Financial Times á sunnudaginn er talað um það á forsíðu að aldrei hafi fleiri störf tapast í Bandaríkjunum en einmitt á því tímabili sem liðið er frá áramótum, eða yfir 200 þúsund störf. Ég get ekki merkt annað miðað við þá sem ég tala við og vinna við fasteignamarkaðinn annað en að þar sé um verulegan samdrátt að ræða. Það liggur fyrir að mun minni viðskipti eiga sér nú stað. Menn tala um að ekki hafi orðið veruleg verðlækkun ef til vill vegna þess að það er ákveðin stífla á markaðnum. Það endurspeglar því ekki þá þróun sem kannski er orðin en þar erum við e.t.v. að geta okkur til.

Hitt er annað mál að við glímum við verulega verðbólgu í þjóðfélaginu, yfir 10%, sem endurspeglast ekki varðandi fasteignaverð núna. Það er alveg hárrétt sem hæstv. fjármálaráðherra heldur fram að að sjálfsögðu skiptir máli hvenær og hvernig menn taka af stimpilgjald og menn verða að gera það á þeim tíma þannig að það valdi ekki verðhækkunum í þjóðfélaginu. Ég met það þannig að ef það hefur einhvern tíma á síðustu árum verið ástæða til þess að gera það, sé það einmitt núna vegna þess að við horfum fram á að ástæða er til þess að örva viðskipti en ekki draga úr þeim.

Þess vegna fannst mér líka mjög góð ábending hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni þar sem hann velti fyrir sér spurningunni um hvort það ætti hreinlega að láta stimpilgjaldið lækka í ákveðnum áföngum. Það getur verið miklu skynsamlegri leið að gera það en að fara þá leið sem gert er í þessu frumvarpi, að láta það eingöngu ná til fyrstu íbúðar og búa til þetta flókna eftirlitskerfi. Ég held því að efnahags- og skattanefnd hljóti að athuga að fara þá leið sem mundi þá hafa ákveðna þýðingu á markaðnum og veita ákveðna jákvæða innspýtingu á því tímabili.

Ég man eftir ríkisstjórn sem lofaði því að hún mundi gera ákveðinn hlut á kjörtímabilinu. Það var vinstri stjórn sem sagðist ætla að losna við herinn. Það var á þeim tíma sem Íslendingar vildu losna við bandaríska herinn en héldu ekki í hann eins og menn hafa gert síðustu 15 ár. Þá lofaði ríkisstjórnin því að herinn ætti að fara í áföngum á kjörtímabilinu. Áfangarnir urðu litlir sem engir og á kjörtímabilið leið og ekki fór herinn. Hér sjáum við hins vegar hilla undir ákveðna framkvæmd og það er af hinu góða en hins vegar er alveg nauðsynlegt þegar menn gera breytingar að búa ekki til vandamál í staðinn. Verið er að búa til verulegt vandamál við þinglýsingar skjala og við eigum bara að komast hjá því. Ef ríkisstjórnin er ekki tilbúin til þess að framkvæma nema fjórðungsefndir af kosningaloforðunum þá eigum við frekar að fara þá leið að lækka gjöldin varðandi íbúðarkaup, þ.e. stimpilgjöld, frekar en að búa til einhver vandamál eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Pétri Blöndal að einn óréttlátasti hluti stimpilgjaldanna er sá skattur sem leggst á skuldugasta fólkið í þjóðfélaginu. Það er tvímælalaust hlutur sem taka þarf á og ætti að koma sem fyrsta skref varðandi afnám stimpilgjalda, að afnema þennan mjög svo óréttláta skatt gagnvart þeim sem eru í fátæktargildru. Ég tek því heils hugar undir með honum og ég vænti þess að hann hlutist til um það sem formaður efnahags- og skattanefndar að gera bragarbót á þessu frumvarpi og að tillit verði tekið til þeirra sjónarmiða.