135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:02]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja orð í belg. Ég sit í efnahags- og skattanefnd þannig að mér á eftir að gefast tími til að fara yfir þessi mál.

Ég vil þó segja að það kemur dálítið á óvart að menn skuli ekki taka meira undir þá skattalækkun sem hér er lagt til. Hér er verið að taka fyrsta skrefið í þá átt sem lýst hefur verið, að fella stimpilgjöldin niður. Ég held að það væri eðlilegra við þessar aðstæður að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tækju undir þetta og litu svo á að um gott skref sé að ræða. Stærri skref kunna að verða tekin fyrr en menn órar fyrir. Það má vel vera.

Hins vegar er staðan sú að efnahags- og skattanefnd mun fá þetta mál til meðferðar. Hún mun að sjálfsögðu skoða allar hliðar á þessu máli, mun líka fara yfir það hvort hér kunni að vera á ferðinni kerfi sem erfitt er að vinna með. Við reynum þá að vinna úr því. En eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra áðan, í ræðu hans, eru enn vísbendingar um að talsverð þensla sé í samfélaginu. Þess vegna er eðlilegt að stíga varlega til jarðar. Hins vegar verður þetta skoðað mjög vandlega.

Ég vil líka nefna, af því að hv. þm. Jón Magnússon kom inn á það í ræðu sinni, að talsvert hefði fækkað af störfum í Bandaríkjunum, yfir 200 þús. Í umræðunni á þingi gleymist stundum að horfa á hlutina í stærra samhengi. Ég held að hv. þingmaður hljóti að taka undir það með mér að ríkisstjórnin hefur horft til þess að blikur kunni að vera á lofti. Þess vegna hefur ríkisstjórnin lækkað skatta, m.a. á fyrirtæki. Þess vegna hefur ríkisstjórnin fellt niður skatta af sölu hlutabréfa. Þess vegna hefur ríkisstjórnin líka talað um, lagt til og ákveðið að auka framkvæmdir á vegum hins opinbera. Ríkisvaldið eða ríkisstjórnin og meiri hlutinn sem styður hana hefur tekið ákvarðanir í ljósi þess að blikur kunni að vera á lofti. Allt er þetta liður í því.

Hvort nægilega langt sé farið í hvert eitt sinn er vissulega nokkuð sem má ræða og jafnvel hugsanlega gagnrýna. En mér finnst hins vegar ekki óeðlilegt að gera þá kröfur til manna eins og hv. þm. Jóns Magnússonar að menn ræði þetta í stærra samhengi í stað þess að finna að tæknilegum atriðum sem án efa er auðvelt að fá botn í þegar til þess kemur. Efnahags- og skattanefnd mun náttúrlega fara yfir það hvort eitthvað sé til í þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram og skoða hana en það er hins vegar fyrst og fremst tæknileg afgreiðsla sem hefur ekkert með þessi grundvallaratriði að gera.

Ég tel mikilvægt að hnykkja á að ríkisstjórnin bregst við þeim blikum sem eru á lofti í efnahagslífinu. Hér er tekið á ákveðnum þáttum. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara í auknar framkvæmdir og ríkisstjórnin leggur málið upp þannig að ríkisvaldið þurfi að bera þyngri byrðar næstu eitt, tvö, þrjú árin en undanfarin ár. Það er bara framsýni og skynsemi. Ég hefði haldið að hv. þm. Jón Magnússon ætti að fagna slíkri stefnumótun í stað þess að finna að því með nöldurtóni að einhver tæknileg útfærsla sé ekki eins og hann vilji sjá hana. Ég held að það sé eðlilegra að menn taki undir þetta.

Þetta var kannski það sem ég vildi leggja til við þessa umræðu, virðulegi forseti. En ég mun eiga gott tækifæri til að skoða málið í efnahags- og skattanefnd.