135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:11]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau atriði sem ég hef verið að benda á og varða þetta frumvarp eru aðalatriði þessa máls. Í fyrsta lagi geri ég athugasemd við það hve skammt er gengið, að það eigi bara að fella niður stimpilgjald af íbúðakaupum á fyrstu íbúð. Ég hef haldið því fram, sem er aðalatriði í gagnrýni minni, að fella eigi niður stimpilgjald af íbúðarkaupum. Punktur. Það er höfuðatriði. Það er það sem ég var að segja. Menn eiga að gera það í einu skrefi, ekki eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Það er útilokað að komast hjá því, miðað við hvernig frumvarpið er, að taka upp flókið eftirlitskerfi. Það er ekki tæknilegt úrlausnarefni. Með því að gera þetta svona þarf verulega mikið eftirlit.

Með því að fara þá leið sem ég var að tala um þá höfum við tvær leiðir. Annars vegar er að fella niður stimpilgjald af íbúðarkaupum eða fara þá leið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði grein fyrir og ég tók undir, þ.e. að lækka gjaldið, byrja á því og miða við að fella það niður í áföngum á kjörtímabilinu. Það er önnur leið og einfaldari til að koma í veg fyrir þau tæknilegu vandamál sem ég var að ræða um. Þetta eru efnislegu athugasemdirnar.

Það er síðan annað atriði sem ég nefndi og lýtur að því að auðvelda fólkinu í landinu að skipta um lánastofnun og taka hagkvæmari lán, gera breytingar, þ.e. að afnema þennan óréttláta skatt, eins og hv. þm. Pétur Blöndal kallar þennan skatt. Ég er honum algerlega sammála um það. Það er annað efnisatriði. En það á að afnema stimpilgjald af kaupum á íbúðarhúsnæði.