135. löggjafarþing — 85. fundur,  7. apr. 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:13]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þingmanni. Ég get tekið undir hluta af því sem þar kom fram. En kjarninn, ef hv. þingmaður mundi láta málið njóta sannmælis, er sá að hv. þingmaður er sammála því að stíga þetta skref. Hann hins vegar hefur áhuga á að taka örlítið lengra eða bjóða örlítið betur. Það er í sjálfu sér sjónarmið, að vilja fara þá leið. Það er nokkuð sem við munum klárlega skoða.

Það er hins vegar orðum aukið að það kalli á flókið eftirlitskerfi, verði þetta niðurstaðan, að fara þessa leið. Ég held að það verði ekki nokkur vandkvæði með það. Í grunninn er hv. þingmaður sammála því að taka þetta skref. Í grunninn er hv. þingmaður sammála ríkisstjórninni um að afnema þetta á árinu. Í grunninn er hv. þingmaður sammála því að þessi skattur hefti viðskipti og þessi skattur sé óheilbrigður. Í grunninn er hv. þingmaður algjörlega sammála okkur í þessu máli.

En umræðunnar vegna þurfti hv. þingmaður að finna að því að hugsanlega væri um að ræða kerfi, einhver tækniatriði sem mætti laga. Ég get lofað hv. þingmanni því að við munum skoða það vandlega sem hv. þingmaður hafði áhyggjur af.