135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur engin þjóð efni á því að nýta ekki náttúruauðlindir sínar. Samfara hækkun olíuverðs er verið að skoða alla möguleika til orkuöflunar sem bjóðast. T.d. hafa þær þjóðir í Evrópu sem fremstar voru í því að banna kjarnorkuver, Svíar og Hollendingar, hætt við bannið og áform um að leggja þau niður. Víða er verið að meta möguleika til virkjunar jarðvarma á einhverjum svæðum að undirlagi og með þátttöku okkar Íslendinga.

Umræðan um þennan málaflokk hefur oft á sér yfirbragð öfga og mikilla stóryrða. Það er ekki heppileg leið né vænleg til árangurs. Þannig má lesa í blöðum í dag greinar eftir þá Árna Finnsson og Hjörleif Guttormsson sem hafa uppi stór orð eins og loddaraskap og að dregið sér dár að mönnum þegar Egill Helgason leyfði sér að kalla til í þessari umræðu menn sem eru annarrar skoðunar en þeir.

Ég er líka hugsi vegna ummæla hæstv. umhverfisráðherra á stofnfundi Náttúruverndarsamtaka Vestfjarða á laugardaginn. Þar talaði hún um kúgun til þagnar, þvingun til sovéskra heildarlausna í atvinnumálum og að verja verði stöðu íslenskrar náttúru gagnvart hagsmunum stóriðju og auðlindagræðgi. Ég spyr, virðulegi forseti: Er þessi málflutningur líklegur til árangurs?

Íslendingar hafa sýnt ábyrgð í umgengni sinni við náttúruna hvort sem er til lands eða sjávar. Á undanförnum árum hefur umhverfi í atvinnulífi okkar breyst mikið með tilheyrandi byggðaröskun. Við þurfum að finna önnur tækifæri til uppbyggingar og eflingar byggðar. Það gerum við með því að virkja auðlindir okkar. Við verðum að ráðast í verkefni á þeim hraða sem hentar samfélagi okkar og forgangsraða í uppbyggingu í þágu þeirra byggða sem verr eru settar. Í því sambandi hefði ég viljað sjá uppbyggingu álvers á Bakka fara af stað áður en ráðist yrði í framkvæmd í Helguvík. Það er þannig að þeim sjúklingi sem verst er staddur ber að sinna fyrst.

Ég er líka sammála því sjónarmiði sem komið hefur fram í þessari umræðu að leita eigi fjölbreyttari leiða til atvinnusköpunar þegar við erum að tala um virkjanir á náttúruauðlindum okkar.