135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:41]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Það er bersýnilegt á þeim málflutningi sem hér var viðhafður í upphafi þessarar umræðu að Samfylkingin hefur ekki góðan málstað að verja. Með viðbrögðum sínum við þeirri umræðu sem farið hefur fram að undanförnu þá staðfestir hún í raun að hún er að ganga á bak kosningaloforða sinna frá kosningabaráttunni síðastliðið vor. Það gerist líka hér með málflutningi hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Samfylkingarmenn hafa haft uppi ýmis orð í þessu samhengi. M.a. lét einn af helstu höfundum og talsmönnum Samfylkingarinnar í umhverfismálum, Dofri Hermannsson, þau orð falla í Kastljóssþætti í gærkvöldi að ríkisvaldið skorti tæki, að umhverfisráðherra skorti tæki til að koma í veg fyrir álverið í Helguvík. Tækið sem um er að ræða var þá landsskipulagið og var það sérstaklega nefnt að sá sem hér stendur væri á móti landsskipulagi. Aumingjalegri málflutning hef ég aldrei heyrt í mínu pólitíska starfi. Hvernig væri að Samfylkingin mokaði aðeins út úr eyrunum og hlustaði á þá umræðu sem hér hefur farið fram, m.a. um það mál? Ég sagði í umræðum um skipulagslögin sérstaklega að ég teldi „mjög mikilvægt að við reyndum að ná sátt um það hvernig landsskipulagshugsunin yrði á endanum í lögunum. Ég get alveg staðfest það sem hæstv. umhverfisráðherra segir að auðvitað verða ekki allir ánægðir með hugsunina sem er í sambandi við landsskipulagið. Ég er sjálfur almennt þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að vera með einhverja heildarstefnumörkun í þessu sambandi. Ég vil leyfa mér að skoða þær útfærslur sem þar eiga að vera.“ Samfylkingin á að skammast sín fyrir að þurfa að beita ósannindum og lygum til að moka yfir endaleysuna og þvæluna í sjálfum sér í þessum málaflokki.