135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:43]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að tekist sé á um umhverfismál sem auðvitað eru undirrótin að þessum umræðum og er greinilegt að tveir stjórnarflokkar keppa mjög um hylli kjósenda og takast mjög á á þeim vettvangi. Niðurstaðan er kannski sú að Sjálfstæðisflokkurinn er glaðastur allra með þessi átök milli flokkanna því að það tryggir honum ævarandi stjórnarsetu meðan þessir tveir flokkar sitja ekki á sárs höfði.

Ég legg áherslu á að alþingismenn geta ekki leyft sér að atyrða ráðherra fyrir að fara að lögum, hvort sem sú niðurstaða er í samræmi við vilja viðkomandi ráðherra eða viðkomandi þingmanns. Það hlýtur alltaf að vera frumskylda ráðherra að fara að lögum. Mér finnst að þingmenn eigi ekki að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðherra sem þannig er byggð upp nema þá að athugasemdin lúti að því að ekki sé farið að lögum. Það er allt annað mál.

Við eigum auðvitað að nýta auðlindir okkar til lands og sjávar til að byggja þetta land og skapa þjóðinni góð lífskjör. Það á við á Suðurnesjum eins og annars staðar á landinu. Ég tek ekki undir þau sjónarmið að menn eigi að leggja slík tækifæri til hliðar um lengri tíma. Auðvitað þarf að huga að efnahagslífinu og gæta að því að hér sé ekki of mikið undir á hverjum tíma þannig að við lendum ekki í þeirri aðstöðu sem við höfum verið á undanförnum árum í yfirhituðu efnahagskerfi sem leiðir af sér verðbólgu sem síðan kemur niður á öllum landsmönnum. Við verðum því að varast að taka ákvarðanir á komandi mánuðum sem viðhalda því ástandi.