135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:45]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er nokkuð hugsi eftir að hafa heyrt viðbrögð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar hér áðan. Ég vakti athygli á því í upphafi þessarar umræðu að engar efnislegar innstæður væru hjá þingmönnum Vinstri grænna fyrir þeim miklu gífuryrðum sem þeir hafa látið falla í garð umhverfisráðherra á síðustu dögum.

Það liggur ljóst fyrir, þótt hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon reyni að búa til einhverja sögu um annað, að ég fer hér orðrétt með það sem hann sagði sjálfur í viðtali. Og hvað segir hann þar? Jú, hann segist ekki ætla að gera það að úrslitakosti í stjórnarmyndunarviðræðum að fallið verði frá framkvæmdum í Helguvík. Hann ljáir máls á því að ef ekki sé hægt að bremsa þá framkvæmd af sé í sjálfu sér allt í lagi að hún haldi áfram og það skipti þá sérstaklega máli í því efni hvaðan orkan til hennar kemur.

Með öðrum orðum: Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var ekki sestur við stjórnarmyndunarborðið þegar hann var byrjaður að gefa þennan slaka út. Með öðrum orðum: Hann ætlaði sér að mynda ríkisstjórn á þeim forsendum að hann var tilbúinn að segja í upphafi að hann mundi ekki gera þessar kröfur vegna álvers í Helguvík, að hann mundi beygja sig, eins og allra góðra stjórnmálamanna er skylda, og lúta lögum. (Gripið fram í.) Hann ætlaði að lúta lögum. Já, ég vil nú trúa því hv. þingmaður að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði sem ráðherra viljað lúta landslögum nákvæmlega með sama hætti og hæstv. umhverfisráðherra hefur farið að lögum í þessu máli nú. Ég segi því: Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon markaði umfjöllun um Helguvíkurálver þennan ramma. Hann sagði með öðrum orðum að ef ekki væri lagalega hægt að stoppa þetta mundi hann ekki hrófla við því.

Ég kalla þess vegna einungis eftir samkvæmni í málflutningi hv. þingmanna Vinstri grænna. Það er hið eina sem ég kalla eftir. Og hennar (Forseti hringir.) hefur ekki orðið vart í þessari umræðu.