135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég geri kröfur um það að rétt sé í mig vitnað og orðrétt og viðtöl við mig séu lesin í heild. Þá kvíði ég ekki niðurstöðunni af slíkum tilvitnunum. (Gripið fram í.) Hér var hvorugt gert, hv. þm. Helgi Hjörvar. Hér var hvorugt gert. Viðtalið var um það hvernig hægt væri að koma við því stóriðjustoppi sem við höfum lengi barist fyrir. Það hefur Samfylkingin aldrei hugsað út í og sennilega aldrei meint neitt með því eins og nú er komið á daginn.

Ég var m.a. spurður út í þau ummæli framsóknarmanna og þá stefnu sem þar var upptekin að þetta mál væri alls ekki lengur í höndum stjórnvalda og í viðtalinu listaði ég upp að svo væri auðvitað ekki. Því í fyrsta lagi væri hér um leyfisskylda starfsemi að ræða. Í öðru lagi væri það þannig að hið opinbera ætti orkufyrirtækin að stærstum hluta til. Í þriðja lagi fengju þau ríkisábyrgðir og lán. Í fjórða lagi væru losunarheimildir. Öllum þessum tækjum gætu stjórnvöld beitt til þess að koma fram stóriðjustefnu sinni.

Það væri að okkar dómi réttlætanlegt að koma til móts við fyrirtæki sem hefðu lagt út í kostnað og greiða þeim hann að einhverju leyti til baka eða kaupa rannsóknarniðurstöður af fyrirtækjum. Stefna okkar var vandlega útfærð og hugsuð og við höfðum m.a. borið okkur saman við lögfræðinga um það hvernig hægt væri að koma stóriðjustoppi okkar fram. Það hefur Samfylkingin greinilega aldrei gert vegna þess að eftir kosningar hefur hún tekið upp afturvirku stefnubreytinguna Framsóknar, um að stjórnvöld geti bara ekkert í þessu gert, séu viljalaus verkfæri. Var þá Samfylkingin aldrei búin að hugsa stóriðjustoppið sitt, Fagra Ísland? Það vorum við búin að gera.

Þessu var ég að svara þarna og þetta var ég að útskýra. Þá kemur spurning um það að ef fyrirtæki eða verkefni sé komið svo langt að allt þetta sé um garð gengið og þá kemur svarið. Svarið var á þá leið að ef öll leyfi séu tilkomin og stjórnvöld hafi ekki nein tæki lengur í sínum höndum verði menn að horfast í augu við það. Nákvæmlega svona var þetta viðtal um þetta efni. (Forseti hringir.) Er ég þar með orðinn samþykkur Helguvík? Er ég þar með að svíkja stefnu flokksins? Svarið er nei. (Forseti hringir.) Það breytir engu um afstöðu mína og stefnu okkar í þessum efnum þó að svar sé með þessum hætti við spurningum sem til falla af slíkum ástæðum. Þetta var nú allt og sumt. (Forseti hringir.) Þetta er það eina sem Samfylkingin hefur til að klóra yfir skömm sína í þessu málum. Fagra Ísland farið í vaskinn. (Forseti hringir.)