135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:56]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Vitnað hefur verið til orða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem ég hygg að hafi verið sögð í hádegisviðtali Stöðvar 2 og þegar þingmaðurinn nú krefst þess að vitnað sé í viðtöl við hann í heild er rétt að minna á það að hádegisviðtalið á Stöð 2 er liðlega 40 mínútna langt, ef ég man rétt. Með fullri virðingu fyrir hv. þingmanni þá held ég að það geri menn ekki nema á Kúbu að lesa upp úr slíkum viðtölum.

Hér er þyrlað upp moldviðri af hálfu stjórnarandstöðunnar með svikabrigslum á hendur Samfylkingunni, og á grundvelli hvers? Á grundvelli þess að hæstv. umhverfisráðherra hefur farið að lögum. Það eru engin svik í því fólgin af hálfu Samfylkingarinnar eða umhverfisráðherra hennar að fara að lögum landsins. Fagra Ísland var stefnumörkun um náttúruvernd á Íslandi og í stjórnarsáttmála Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hefur verið hafin rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruperla og fjöldinn allur af stöðum — Langisjór, Jökulsá á Fjöllum, Þjórsárver, Hveravellir, Kerlingarfjöll, og þannig getum við talið áfram, tekinn undan stóriðjustefnunni og virkjunaráformunum. Með þeim hætti hefur Samfylkingin mætt náttúruverndarsjónarmiðum þeim sem við kynntum í síðustu kosningum.

Hitt er annað mál og rétt að hafin voru verkefni í stóriðju og að stjórnvöld hafa takmörkuð tæki til þess að stöðva eða hafa áhrif á slík verkefni eins og við höfum rakið. En það er fullt tilefni til þess að koma þeim upp og ég hef fulla trú á því að stjórnarflokkarnir muni í sameiningu ná að koma slíkum tækjum upp. Því eins og við heyrðum t.d. í máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar Sjálfstæðisflokki höfum við orðið í öllum flokkum efasemdir um að skynsamlegt sé að fara lengra í uppbyggingu álvera vegna þess hversu (Forseti hringir.) þungt þau eru farin að vega hér í efnahagnum og ekki síst vegna þeirra neikvæðu loftslagsáhrifa sem þau hafa og vert er að hafa hér hátt á dagskránni, (Forseti hringir.) ekki síst á þeim degi þegar Al Gore hefur heimsótt Ísland og minnt okkur, í morgun, á þá alvarlegu hluti sem eru á ferð.