135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[14:58]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Löng hefð er fyrir því að hæstv. utanríkisráðherra leggi skýrslu fyrir Alþingi eins og við ræðum hér í dag. Ég þakka fyrir þá skýrslu sem gefur mjög gott yfirlit yfir utanríkismálin og starfsemi utanríkisþjónustunnar. Þar er mikið af upplýsingum sem ágætt er að fara yfir og glöggva sig á varðandi þessi mál.

Utanríkismál eru í reynd innanríkismál. Við erum ekki að ræða hér um afmarkaðan málaflokk sem er einangraður við alþjóðlegt umhverfi vegna þess að allt sem á sér stað á alþjóðavettvangi snertir meira og minna daglegt líf og störf okkar hér á Íslandi þannig að allt er þetta nú samofið.

Stefnan í utanríkis-, öryggis- og varnarmálum hefur lengi verið í föstum skorðum og þróast í takt við breytingar á umhverfi og þróun heimsmálanna. Stefnan nú er í raun og veru sú sama og undanfarin ár ef marka má það sem kemur fram í þessari ágætu skýrslu sem við ræðum. Að sjálfsögðu lýsi ég ánægju með það.

Öryggis- og varnarmálin eru einn mikilvægasti þáttur utanríkismálanna og það varð hér mikil grundvallarbreyting þegar varnarliðið hvarf af landi brott eins og við öll munum. Þá sköpuðust nýjar aðstæður og í reynd var um mjög stórt verkefni að ræða eins og hv. þingmenn hafa fjallað um. Aðdragandinn að því að Bandaríkjamenn fóru varð kannski nokkuð snarpur svona undir það síðasta og mér fannst að framkoma Bandaríkjamanna við Íslendinga hafi verið nokkuð snubbótt og í raun og veru illásættanleg þegar á reyndi og brottförin var tilkynnt. Varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn hefur meira og minna byggst á grundvelli þeirra og þyrfti í raun og veru að þróast meira á forsendum okkar til framtíðar. Með þessu hófst nýr kafli í sögu öryggis- og varnarmála hér á landi.

Við þessar aðstæður kom sér auðvitað vel að Ísland er aðili að NATO og rætt hefur verið og samið við NATO-ríki að taka að sér loftrýmisgæslu í samstarfi við okkur Íslendinga. Það hefur verið samstarf við Norðurlandaþjóðirnar, sérstaklega Norðmenn, í þessum málum. Ég bendi á að í þessu máli kemur vel fram hve mikilvægt er að Íslendingar séu aðilar að NATO. Ég tel að mjög vel hafi tekist til við að vinna úr þessari nýju stöðu og tek þar undir með hv. formanni utanríkismálanefndar sem talaði hér áðan og fór vel yfir málin.

Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra er mikið fjallað um NATO og samstarf NATO-ríkjanna. Það er auðvitað athyglisvert að mikilvægi NATO birtist m.a. í ásókn margra ríkja Austur-Evrópu í að fá aðild að NATO. Það segir mikið um stöðu þeirra eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur á sínum tíma. Sama má í raun og veru segja um ríki fyrrverandi Júgóslavíu. Þar er sama sagan uppi sem segir okkur að það er almennt mat að tilvist NATO er talin mikilvæg og þjóðir sækja í að fá aðild að bandalaginu.

Ég hef sjálfur nokkra reynslu af þátttöku í starfi þingmannasamtaka NATO. Þar er mikið fjallað um mannréttindamál, efnahagsmál, umhverfis- og loftslagsmál og um baráttu gegn mansali og alls kyns skipulegri glæpastarfsemi svo eitthvað sé nefnt. Á þeim vettvangi er mikið undir og margt rætt. Þar eiga þjóðir, bæði aðildarþjóðir og eins áheyrnaraðilar, mjög gott samstarf um hin ýmsu mál sem þar er fjallað um.

Rússar eiga aðild að NATO-samstarfinu og það er mikilvægur þáttur þess. Þeir taka mikinn þátt í störfum NATO og umfjöllun um ýmis málefni sem þar eru. Lögð hefur verið áhersla á að styrkja þetta samstarf við Rússa og það er auðvitað mikilvægt.

Aðild og þátttaka Íslendinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur lengi verið einn af grundvallarþáttum í utanríkisstefnu okkar allt frá stofnun Sameinuðu þjóðanna má segja. Íslendingar hafa tekið virkan þátt í störfum Sameinuðu þjóðanna með fastanefndina í New York í broddi fylkingar á þeim slóðum. Við höfum tekið virkan þátt í störfum stofnana Sameinuðu þjóðanna á ýmsum sviðum og ég tel að við eigum að halda áfram að efla þann þátt í utanríkisstarfsemi okkar.

Framboð til öryggisráðsins er auðvitað mjög stórt mál og mun ná hápunkti á næstu vikum og mánuðum. Úrslitin úr þeirri kosningabaráttu munu koma fram á haustmánuðum. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma að ákveða framboð til öryggisráðsins á þeim tíma þegar Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra. Framboðið var undirbúið og hefur verið unnið að því eftir settri áætlun. Ég fagnaði því sem kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra áðan að haldið væri við þessa áætlun til framboðsins og vonandi gengur það vel.

Að mínu mati eigum við fullt erindi í öryggisráðið. Þar er fjallað um mörg stór og erfið mál og smærri mál líka og við eigum að láta til okkar taka á svona vettvangi og vera óhrædd við það. Við erum hluti af hinni stóru mynd og eigum ekki að sitja í skjóli sem eitthvert smáríki. Við eigum að taka virkan og fullan þátt.

Mannréttindamálin eru auðvitað eitt af mikilvægustu viðfangsefnum í alþjóðlegu samstarfi. Við tökum víða þátt í umfjöllun um þau mál. Ég nefni þar sem dæmi Sameinuðu þjóðirnar, NATO, ÖSE og Evrópuráðið. Við eigum auðvitað að láta til okkar taka alls staðar þar sem því verður við komið í mannréttindamálum. Í tíð fyrrverandi utanríkisráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, var í fyrsta skipti mótuð mannréttindastefna utanríkisráðuneytisins. Það er mikilvægt að fylgja henni eftir og mótmæla öllum mannréttindabrotum sem eiga sér stað hvort sem um er að ræða vina- og samstarfsþjóðir okkar eða ekki. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um Kína og Tíbet og að sjálfsögðu eigum við að láta til okkar taka í þessum málum.

Ég vil leyfa mér að nefna eitt í tengslum við mannréttindamálin og beina því til hæstv. ráðherra hvort hún sé tilbúin að fjalla um það. Það hefur komið fram í fréttum núna síðustu daga að Íslendingur er vistaður í einangrun í Færeyjum vegna tiltekins sakamáls. Mér þætti fróðlegt að vita hvort það mál hafi komið til kasta utanríkisráðuneytisins, hvort hæstv. ráðherra er tilbúinn að tjá sig um það. Þar er um að ræða langa einangrunarvist í fangelsi sem að minnsta kosti sumir telja að séu ákveðin mannréttindabrot og þess vegna nefni ég það hér í þessu sambandi.

Það er margt í þessari skýrslu sem vert væri að fara yfir. Ég vil nefna hér þróunarsamvinnuna sem er auðvitað eitt mikilvægasta framlag okkar til þróunarlanda og þar er m.a. unnið eftir þróunarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni er mikið fjallað um þessi mál og þar er fjallað um ýmis verkefni sem við höfum tekið þátt í víða í heiminum. Við höfum lagt mjög margt gott af mörkum í þessum málaflokki og eigum að halda því áfram. Fjárframlög til þessa málaflokks hafa aukist á síðustu árum. Við eigum að halda áfram á þeirri braut og ná þeim markmiðum sem við settum okkur og eru í samræmi við þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Fyrr í vetur var lögð fram skýrsla hæstv. utanríkisráðherra um Ísland á innri markaði Evrópu og sú skýrsla var rædd hér fyrr í vetur. Það er auðvitað erfitt að slíta þau mál úr heildarsamhengi vegna þess að þar er að mínu mati um að ræða eitt mikilvægasta framtíðarhagsmunamál þjóðarinnar hvernig því verður fyrir komið til framtíðar, hvernig við ætlum að staðsetja okkur í þessu samhengi.

Þessi mál eru alltaf í deiglunni. Nefnd stjórnarflokkanna hefur nýhafið störf hér en reyndar eiga fleiri fulltrúar aðild að henni. Það er tvíhöfða nefnd um Evrópumál sem virðist hafa það hlutverk fyrst og fremst að fylgjast með. Sumir hafa orðað það þannig að þetta sé svona huggulegur teklúbbur en vonandi verður verk þessarar nefndar markvert og gott innlegg í þessa umræðu. Ég tel að þarna sé um að ræða málamiðlun á milli stjórnarflokkanna því að við vitum að það eru mismunandi áherslur milli þeirra í þessum málaflokki. Í raun og veru er það ekki í fyrsta skipti sem þessir stjórnmálaflokkar stofna nefnd af þessu tagi í erfiðum málum. Ég minni á að á kjörtímabilinu 1991–1995 þegar sjávarútvegsmál voru mikið í brennidepli stofnuðu þáverandi stjórnarflokkar nefnd sem leysa átti að vandamál í sjávarútvegi. Hún var tvíhöfða eins og þessi en skilaði í raun og veru ekki miklum árangri, því miður.

Þessi mál eru auðvitað mjög mikilvæg og ég tel að það þurfi að færa umræðuna um þau á annað plan en verið hefur og reyna að komast að niðurstöðu um það hvert við ætlum að stefna í þessum málaflokki.

Eins og við höfum séð og rætt um fjallar þessi skýrsla um hin ýmsu mál og er gott yfirlit yfir starf og verkefni utanríkisþjónustunnar. Hins vegar vakti það athygli mína að ég gat ekki séð að í skýrslunni væri fjallað neitt um heimkvaðningu friðargæslusveitarinnar frá Írak á síðastliðnu ári. (Gripið fram í.) Væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hverju það sætir, af hverju ekki er gerð grein fyrir því í þessari skýrslu.

Ég rifja það líka upp að mörg undanfarin ár hefur Samfylkingin gagnrýnt mjög aukið umfang utanríkisþjónustunnar. Á síðasta kjörtímabili gagnrýndu þingmenn Samfylkingar mjög starfsemi sendiráða og þá auknu fjármuni sem höfðu farið til þeirra á undanförnum árum. Nú virðist stefnan hafa breyst og ég fagna því að hæstv. utanríkisráðherra leggur mikla áherslu á utanríkisþjónustuna. Ég sé ekki betur en að hún vilji efla hana og ég fagna því vegna þess að utanríkisþjónustan vinnur mjög mikilvægt starf víða um heiminn og í þágu einstaklinga og atvinnulífs. Hún vinnur að hagsmunamálum allra þessara aðila og er alls staðar til staðar fyrir íslenska ríkisborgara ef á þarf að halda.

Ég vil því undir lok máls míns leggja áherslu á mikilvægi utanríkisþjónustunnar og tek ekki undir þann málflutning sem hefur á stundum komið upp þar sem verið er að gera lítið úr henni og jafnvel talað um að þar sé um óþarfa að ræða. Ég tel svo ekki vera. Við eigum að efla þessa þjónustu og hér hefur m.a. verið rætt um sendiráð sem hefur verið sett upp á Indlandi og víðar. Þetta er allt mikilvægt. Við eigum að láta til okkar taka sem víðast þótt við búum í smáríki.

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að láta máli mínu lokið. Ég ítreka þakkir fyrir þessa skýrslu og ég vil nota tækifærið og þakka öllu starfsfólki utanríkisþjónustunnar fyrir mjög gott og mikið starf í þágu þjóðarinnar á alþjóðavísu. Ég tel það mikilvægt og óska þeim öllum góðs gengis í sínu mikilvægu störfum.