135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:17]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vísa einungis til þess að það er ekki er hægt að nota sjálfsákvörðunarrétt þegar það hentar og gleyma honum í öðrum tilvikum. Ísland er nýbúið að viðurkenna sjálfstæði Kosovo á afar óljósum og langsóttum þjóðréttarlegum grunni, að Kosovo-hérað í Serbíu fullnægi þeim kröfum, byggt Albönum sem er ríki við hliðina, sem skilgreiningar Sameinuðu þjóðanna gera ráð fyrir. Það er augljóst að Tíbetar standa miklu nær því, svo ekki sé minnst á Vestur-Sahara sem hér var nefnd. Það snýr að sjálfsákvörðunarrétti eins og hann er skilgreindur í þjóðaréttinum. Ef menn uppfylla skilyrðin sem þjóð eða þjóðarbrot með eigin menningu og tungu og ráða yfir landsvæði eða byggja að stofni til landsvæði sem þeim er sögulega helgað þá eigi þeir sjálfsákvörðunarrétt til að verða sjálfstæð þjóð meðal þjóðanna o.s.frv.

Ég held að það sé hæpið að túlka sjálfsákvörðunarréttinn í sama samhengi og setja það inn í það að menn eigi rétt á að ganga inn í hernaðarbandalagið NATO. Það er stórpólitísk ákvörðun. NATO er ekki Sameinuðu þjóðirnar, NATO er ekki Evrópuráð, eða önnur slík lýðræðislega uppbyggð heildarsamtök sem standa öllum opin. Það er pólitísk ákvörðun að hafa NATO opið fyrir næstu nágrannaríkjum kjarnorkuveldisins Rússlands. Menn verða að axla ábyrgð af þeirri utanríkis- og öryggispólitísku leið sem þar er valin. Ef hún leiðir til aukinnar spennu og vígbúnaðarkapphlaups, er þá eitthvað unnið með því?

Ég verð að segja að ég get ekki verið sammála hæstv. utanríkisráðherra um að engin stefnumarkandi ákvörðun hafi verið studd af Íslands hálfu þegar ég les frá orði til orðs 37. tölulið yfirlýsingarinnar af Búkarest-fundinum. Þar er þessu fagnað og sagt að mikilvægt sé fyrir varnir bandalagsríkjanna að þetta eldflaugavarnakerfi verði sett upp. Mér finnst utanríkisráðherra reyna að koma sér hjá því að axla pólitíska ábyrgð á afstöðu Íslands á þessum fundi.