135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:21]
Hlusta

Paul Nikolov (Vg):

Hæstv. forseti. Það er fagnaðarefni að í þessari skýrslu skuli fjallað um mannréttindi og kvenréttindi í samstarfi við þróunarlönd. En horfum aðeins til Íslands. Ef ég mundi stíga í pontu og leggja til að við eyddum 1.500 millj. kr. í að byggja upp risastóran vegg suður með sjó til að vernda okkur gegn flóðbylgjum vona ég sannarlega að hv. þingmenn í salnum mundu gagnrýna mig og greiða atkvæði gegn svo fáránlegri hugmynd. En af hverju eigum við ekki að vernda land okkar og þjóð gegn því sem gæti hugsanlega skaðað okkur, óháð kostnaði og jafnvel þótt möguleikinn á því sé nánast enginn? Þótt flóðbylgja hafi aldrei ógnað Íslandi er smámöguleiki á að slíkt gæti komið fyrir einhvern tímann í framtíðinni.

Málið er einfaldlega að margt er brýnt og margt sem þarf nauðsynlega að verja 1.500 millj. kr. strax í dag. Við sem skynsamt fólk eigum að setja í forgang það sem er aðkallandi fyrir samfélag okkar, t.d. í efnahagslífi, heilbrigðiskerfi, menntakerfi, hjá öryrkjum, öldruðum og mörgum öðrum.

Það gerum við ekki þegar við eyðum 1.500 millj. kr. núna og meira í framtíðinni til að vernda Ísland gegn hugsanlegum óvini sem gæti kannski hugsanlega ráðist á okkur einhvern tímann í framtíðinni. En hvar eru þá 1.500 millj. kr. gegn þeim ógnum sem við eigum raunverulega við að glíma dag frá degi í samfélaginu, svo sem umferðarslys, ódæði, nauðganir, fíkniefnavá og áfengissýki, raunverulegum ógnum sem hvíla þungt á fjölskyldum í landinu? Væri peningunum virkilega ekki betur varið í slíkt?

Varnarsamningurinn við Bandaríkin er enn í gildi og bandaríski herinn er skuldbundinn til að verja landið. En ég tel að hernaðarógn gegn Íslandi sé um það bil eins líkleg og að flóðbylgja gleypi landið hrátt. Við verjum okkur miklu betur með því að efla landhelgisgæslu okkar og almenna löggæslu og ekki síst með því að hætta að taka þátt í stríði. Við þurfum ekki heldur að vera í NATO til að hjálpa fólki í Afganistan eða öðrum þróunarlöndum. Hinn kaldhæðnislegi sannleikur í málinu er sá að þátttaka okkar í hernaðarátökum, eins og innrásinni í Írak og Afganistan, getur skapað óvini sem væru annars ekki til. Getur bandaríski herinn verndað okkur gegn slíkum óvinum? Það tel ég ekki.

Af hverju í ósköpunum ætlum við að leyfa hér heræfingar annarra á friðartímum og meira að segja borga fyrir það? Fyrir hvern er það gert? Langbestu varnir okkar væru að efla löggæslu og landhelgisgæslu víða um land og taka með skörulegum hætti af allan vafa um að Ísland standi fyrir friði og taki aldrei þátt í hernaðarbrölti eins og innrásinni í Írak.

Mér finnst það afar sérkennilegt að við skulum hlaupa undir bagga með Bandaríkjunum varðandi eldflaugavarnakerfi eins og gert var á NATO-þinginu í Búkarest fyrir viku. Ég man vel eftir því þegar ég sá í sjónvarpinu Reagan og Gorbatsjov hittast á Íslandi, þegar tók að hilla undir lok kalda stríðsins. Höfum við gleymt því hvernig heimurinn var þá? Nú hefst annar hluti kalda stríðsins. Frakkland og Þýskaland hafa í það minnsta gagnrýnt eldflaugavarnakerfið, en hvað gerum við? Af hverju getum við ekki gengið svo langt eða jafnvel lengra? Ég vona að við berum gæfu til þess.

Hér var talað um ímynd Íslands. Við teljum okkur friðsama þjóð og það erum við. Það eru forréttindi í heimi þar sem hver stórþjóðin á fætur annarri keppist við að láta til sín taka í hernaðarmálum. Hvers vegna viljum við glata þessari sérstöðu? Ég er fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum og hreinlega skil ekki hvernig Ísland getur hlaupið á eftir vitleysu annarra stórþjóða. Hver af annarri keppast þær við að eyða meira og meira fjármagni til hernaðarmála sem þau fela undir nafninu „varnarmál“. Hver af annarri keppast þær við að berjast við óskilgreinda hryðjuverkavá. Er fíkniefnavandinn ekki stærra og meira aðkallandi vandamál fyrir börnin okkar en hryðjuverk á Íslandi?

Um 78% landsmanna sögðu nei við innrásinni í Írak árið 2003, samkvæmt skoðanakönnun Capacents. Ríkisstjórnin hlustaði ekki þá en vonandi mun hún hlusta núna. Ísland á að standa stolt sem þjóð meðal þjóða fyrir friðarstefnu. Í samræmi við það eigum við að efla landhelgisgæslu og lögreglu og takast á við félagsleg vandamál sem við er að glíma, vandamál sem bitna á börnum, unglingum, foreldrum og öðrum einstaklingum samfélags okkar.