135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:34]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Mig langar til að segja hérna nokkur orð um leið og ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög greinargóða skýrslu sem hún mælti fyrir í dag. Ég vil ítreka það sem hefur nú þegar komið fram hjá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni að sú stefna sem þarna kemur fram er okkur ágætlega að skapi og í rauninni mjög lík því sem við framsóknarmenn eigum að venjast þegar við höfum farið með utanríkismál og því ber að fagna. En utanríkismálin eru náttúrlega mjög mikilvæg og verða æ mikilvægari í alþjóðlegu pólitísku samhengi og koma víða við.

Hæstv. ráðherra nefndi áðan að okkur hafi farnast best þegar við höfum haft hvað mest samstarf við aðrar þjóðir og ég held að það séu orð að sönnu, það er sá veruleiki sem blasir við okkur. Ég hef haldið því fram og viljað trúa því að miðað við þær breytingar sem hafa orðið hér á Íslandi, að herinn er ekki lengur hér til staðar þá hefðum við átt að geta náð miklu meiri samstöðu um utanríkismál en mér heyrist vera í umræðunni sem hér fer fram. Það er enn þá núningur, sérstaklega hvað varðar aðild okkar að NATO og hinni svokölluðu NATO-væðingu sem hv. formaður vinstri grænna talar um, en mér finnst slík umfjöllun um NATO einhvern veginn vera á misskilningi byggð. Mér finnst ekki sanngjarnt að fjalla um afstöðu til NATO, um aðild okkar að NATO með þessum hætti vegna þess hve þessi aðild hefur skipt okkur gríðarlega miklu máli og hefur haft mikil og góð áhrif á stöðu okkar meðal þjóðanna í gegnum áratugi.

Auðvitað var það mikið átak og mikill ágreiningur á sínum tíma um það hvort það væri rétt að Ísland gerðist aðili að NATO og það er eitthvað sem tilheyrir sögunni og ekki ástæða til að vera að rifja upp hér. En það má nefna það t.d. með minn flokk, Framsóknarflokkinn, að það má segja að hann hafi klofnað í sambandi við það mál. Það er því ekki lítið sem við framsóknarmenn tókum á okkur á þeim tíma til þess að standa við þá sannfæringu sem á þeim tíma var meiri hluti fyrir innan flokksins, að það væri rétt að gerast aðili að Atlantshafsbandalaginu. (Gripið fram í.) Og gengur nú í salinn formaður vinstri grænna.

Það er nú þannig með Framsóknarflokkinn að við tökum afstöðu til mála í samræmi við það sem við teljum rétt og best fyrir þjóðina. Það vill nú svo sérkennilega til. En það er ekki alveg víst að allir flokkar hugsi málin nákvæmlega þannig. Það er ekki alveg víst, ég ætla ekki að ganga lengra en að segja það. Þetta var í sambandi við hina svokölluðu NATO-væðingu sem hv. formaður vinstri grænna talaði um hérna síðast og ekki meira um það.

Þá eru það þróunarmálin sem eru í rauninni hrygglengjan í sambandi við utanríkismál á Íslandi. Við höfum tekið þá stefnu að auka mjög framlög til þróunarsamvinnu og erum að nálgast 0,35% markið af vergri þjóðarframleiðslu og það er vel. En það má ekki láta þar við sitja því í raun er markmiðið að fara í 0,7%. Til þess að það verði gert skynsamlega og fjármunirnir skili sér þangað sem best er og helst skyldi þá þurfum við að vanda okkur og þess vegna er mikilvægt að endurskoða og endurbæta skipulag þróunarsamvinnumála. Nú liggur fyrir þinginu frumvarp sem einmitt gengur út á það að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur. Lögin eru orðin allgömul og ekki nokkur vafi á því að þau henta ekki í því þjóðfélagi sem við lifum í í dag.

En þótt ég hafi þegar ég var í utanríkisráðuneytinu viljað ganga lengra í sambandi við breytingar á þessu fyrirkomulagi þá tel ég engu að síður að það sem kemur fram í frumvarpinu sé til bóta og þess vegna ber að fagna því. En það fyrirkomulag sem verið hefur, þ.e. að Þróunarsamvinnustofnun sé ekki í meira samhengi við sjálft utanríkisráðuneytið og stefnu viðkomandi ráðherra á hverjum tíma, er ekki rétt aðferð til þess að beita og þess vegna er mjög mikilvægt að gera þar breytingar á.

Ég nefndi varnarmálin aðeins áðan og það að herinn er farinn sem ég hélt, bara svo ég segi það nú aftur eftir að hv. formaður vinstri grænna er kominn í salinn, en ég hélt að það mundi jafnvel geta orðið til þess að það yrði meiri samstaða um varnarmál og utanríkismál. Ég held að það hafi einmitt verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem nefndi að það væri ágreiningur um hvar Ísland ætti að skipa sér í sveit. Ég veit ekki hvar í ósköpunum Ísland á að skipa sér í sveit ef ekki með hinum vestrænu lýðræðisþjóðum sem eiga aðild að NATO og fleiri og fleiri þjóðir óska eftir aðild að því varnarbandalagi. Það er ekki að ástæðulausu. Það verður því ákaflega forvitnilegt að heyra ef hv. þingmaður ætlar að tala hérna á eftir hvar hann telur að við eigum að skipa okkur í sveit ef ekki með þessum þjóðum.

Í sjálfu sér má hafa mörg orð um aðdragandann að því að herinn fór. Það bar vissulega nokkuð brátt að og má alveg segja að Bandaríkjamenn hafi komið frekar leiðinlega fram við okkur í því sambandi. En eftir á að hyggja, og ég er alveg tilbúin að viðurkenna það að með breyttri heimsmynd þá var það nú dálítið á skjön við hana að bandarískur her væri hér í okkar ágæta landi. Ég syrgi það því ekki neitt að þannig fór. En auðvitað gildir tvíhliða varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn áfram þó svo að við að öðru leyti höfum tekið varnarmálin að okkur sjálf. Það kostar að sjálfsögðu peninga og í öll þau ár sem bandaríski herinn var hér þá má segja að við höfum náttúrlega „sloppið ákaflega létt“ við að kosta einhverju til í sambandi við varnir landsins. Það er því ekki nema sjálfsagður hlutur að við Íslendingar tökum á okkur einhvern kostnað við það að verja landið og það er nú fyrsta, annað og þriðja hlutverk stjórnvalda á hverjum tíma að sjá þegnunum fyrir öryggi. Það er náttúrlega verið að reyna að gera og ég trúi því að við séum fullfær til þess að koma málum þannig fyrir að við þurfum ekki að hafa neinar verulegar áhyggjur af því að minnsta kosti.

Nú væri hægt að segja nokkur orð um viðskiptaþáttinn en tíma mínum er nú bráðum að ljúka. En auðvitað eru viðskiptin gríðarlega mikilvæg og stjórnvöld geta oft opnað ákveðnar dyr í tengslum við það sem þau hafa ekki verið löt við að gera og það hefur oft hjálpað bæði fyrirtækjum og einstaklingum í sambandi við samskipti við aðrar þjóðir.

Háskóli Sameinuðu þjóðanna er eitt mikilvægt mál sem ástæða er til að nefna hér. Við þekkjum náttúrlega best Jarðhitaskólann sem hefur staðið sig vel og er gríðarlega þekktur og mikil ánægja með hann. Sjávarútvegsskólinn er yngri en er líka mikilvægur. En nú er komin þriðja stoðin sem ég lýsi sérstakri ánægju með og sú vinna hófst í minni tíð í ráðuneytinu. Það var komið inn á það í skýrslu hæstv. ráðherra að það sé unnið áfram að því máli og það er mjög ánægjulegt því þar er mikil þekking til staðar í samfélagi okkar sem getur nýst þeim þjóðum sem eru illa staddar hvað varðar uppblástur.

Ég lýsi ánægju með að norðurslóðamálin eru áfram í brennidepli og jafnvel talað um ráðstefnu í því sambandi hér á landi. Á allra síðustu fimm sekúndunum sem ég á eftir ætla ég að segja að ég er nokkuð bjartsýn og ég vona að það gangi vel með kosningu til öryggisráðsins og tel að það sé staðið ágætlega að því máli.