135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það og hef oft sagt það hér áður að með brottför Bandaríkjahers var að sjálfsögðu rutt úr vegi mikilvægri hindrun sátta, eitt stærsta ágreiningsefni utanríkis- og öryggismála í meira en hálfa öld var allt í einu horfið og það var vel. En því miður hefur það tækifæri síðan ekki verið notað til þess að a.m.k. láta á það reyna hvort leggja mætti grunn að meiri sátt um áherslur í utanríkis- og alþjóðamálum á grundvelli þessa tækifæris.

Því var heitið strax haustið 2006 að efnt yrði til þverpólitísks samráðs um framhaldið. Það var svikið. Því var heitið aftur í stjórnarsáttmála í maí síðastliðið vor, það á að heita svo að það væri efnt í gær með bréfi þar sem er boðað að formenn stjórnmálaflokka muni hittast tvisvar á ári og ræða þessi mál. Það er nú orðið ansi útþynnt. Þannig að því miður var þetta tækifæri ekki notað, ekki pólitískt, ekki lagður grunnur að því með vinnu eins og hefði auðvitað verið ákaflega æskilegt að gert hefði verið.

Í öðru lagi er það svo auðvitað því miður að hernaðarhyggjan og hernaðarhugsunin og uppáskriftin á henni hefur ekkert horfið með brottför bandaríska hersins. Hún hefur færst að hluta til yfir í enn þá meiri áherslur á að troða okkur inn í öll verkefni NATO og auka eða taka upp öllu heldur og stórauka síðan útgjöld til hernaðarmála hér heima. Þar gengur hernaðarhyggjan og hernaðarhugsunin ljósum logum.

Þegar ég segi að þetta snúist um áherslur og hvar við eigum að skipa okkur í sveit þá á ég ekki við í landfræðilegum skilningi, að við ætlum ekki áfram að vera norræn þjóð og Evrópuþjóð. Það er spurningin um það hvort við fylgjum haukunum að málum eða leggjum aðrar áherslur. Það eru ekki allar vestrænar lýðræðisþjóðir í NATO. Svíþjóð er lýðræðisþjóð, Finnar, Írar, Austurríki og margar fleiri síðast þegar ég vissi. Þær velja aðra leið en að vera í hernaðarbandalaginu NATO. Það eru fleiri möguleikar í stöðunni en þessir og mér finnst það einkennast af einhvers konar nauðhyggju og svolítið afturhverfri hugsun að það sé bara óhugsandi og þurfi ekki að ræða það einu sinni (Forseti hringir.) hvort við notum tækifærið við þessar aðstæður, bæði breyttar aðstæður gagnvart okkur sjálfum og í heiminum til þess að endurskoða áherslur okkar.