135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:46]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er kannski komin í hlutverk sem ég á ekki að vera í, að verja stefnu ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Það fer þér mjög vel.) En ég get alveg talað fyrir þá ríkisstjórn sem var og eins og ég sagði í mínu máli áðan sýnist mér ekki hafa orðið nein breyting á stefnu í utanríkismálum þó að ný ríkisstjórn hafi komið og ég er ánægð með það. En ef þetta er allt saman út af því að hv. þingmaður hefur ekki komið að málum eða komið að neinu borði þar sem teknar eru ákvarðanir og þetta samráð sem talað var um hefur ekki orðið með þeim hætti sem hann gerði sér vonir um og við gerum okkur kannski öll vonir um þá held ég að við getum bætt úr því. En ég trúi því ekki að það sé ekki vilji til staðar hjá ríkisstjórninni til að auka samráð. Ef það gæti orðið til þess að það yrði meiri samhljómur í málflutningi um utanríkismál þá væri það öllum til bóta og okkur öllum mjög í hag.

Þau orð sem hv. þingmaður notar, eins og hernaðarhyggja og hernaðarmál eru einhvern veginn ekki akkúrat orðin sem ég vil nota um okkar varnarmál og aðkomu okkar að friðargæslu og þar fram eftir götunum. En ég get alveg tekið undir það með honum að Bandaríkjamenn eru mjög fyrirferðarmiklir á þessu sviði og að engin ástæða sé til að fylgja þeim blint í öllum málum. Ég held að það hafi ekki verið gert almennt. Þó er alveg sjálfsagt að taka undir það og viðurkenna að meðan þeir voru hér með her í landinu þá hefur það haft einhver áhrif á afstöðu stjórnvalda í ýmsum málum. Það er kannski nærtækast að nefna Írak í því sambandi.