135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:51]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Stuðning við hernaðarhyggjuna nefnir hv. þingmaður. Hann nefndi Írak. Það er náttúrlega hægt að hafa mörg orð um þau ósköp sem hafa þar gengið yfir. Ég vil bara ítreka það að við Íslendingar tökum ekki þátt í því. Það hefur aldrei verið um það að ræða að Ísland hafi tekið þátt í stríðinu í Írak þó svo að stjórnmálamenn hér á landi og forustumenn þjóðarinnar hafi ákveðið að styðja Bandaríkjamenn og Breta á þann þátt sem allir þekkja. Við verðum að gera einhvern greinarmun þarna á milli. En ég ætla ekki að fara frekar út í það.

Ég vil ítreka það, hæstv. forseti, að mér finnst tónninn vera þannig í hv. þingmanni að það sé aldrei að vita nema það geti gerst innan tíðar að það verði meiri samhljómur í málflutningi manna. Ég er ákveðinn NATO-sinni og ekki síður eftir að hafa fengið tækifæri ... (Gripið fram í: Eru það ný tíðindi?) Ég er NATO-sinni já. Eru það tíðindi? (Gripið fram í: Nei það eru ekki ný tíðindi.) Nei, og ekki síður eftir að hafa fengið tækifæri sem utanríkisráðherra að kynnast NATO. (Gripið fram í: Það er ofsaheillandi.) Það er alveg óskaplega heillandi, já. En nú veit ég að hv. þingmaður er kominn með sérstök skilríki upp á það að hann (Gripið fram í: Er sérstakur trúnaðarmaður ...) er sérstakur trúnaðarmaður NATO í utanríkismálanefnd. Ég leyfi mér bara að spyrja hvort honum finnist það ekki vera ánægjulegt og hvort hann hafi ekki öðlast meiri tilfinningar gagnvart þessu bandalagi með þessi skilríki sem hann er með í höndunum frá NATO. (Gripið fram í.)