135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:05]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég deili ekki þeirri skoðun með hv. þm. Árna Páli Árnasyni að NATO sé eitthvert friðarbandalag. Það er einfaldlega þannig. Ég tel mikla mótsögn í því sem fram kemur í skýrslunni, annars vegar um hversu mikilvægt það er að efla samstarf hinna átta ríkja norðurskautssvæðisins eins og rakið er á bls. 47 í skýrslunni og hins vegar um það sem bent er á á bls. 40 hversu mikilvægt það er að sókn í auðlindir norðurslóða og aukin umferð um svæðið valdi ekki spennu í samskiptum norðurskautsríkja heldur verði náið samráð á milli þeirra allra um öryggi svæðisins. (Gripið fram í: Hvar?) Milli þeirra allra, segir þar, og milli þeirra allra sem þarna búa. Skyldu þeir allir vera í NATO? Nei, hv. þm. Árni Páll Árnason, það er nefnilega þannig að Rússar eru ekki í NATO. Rússar eru hins vegar í norðurskautsráðinu og ef efla á samstarf um stöðuna og viðbrögð á norðurslóðum eins og við loftslagsbreytingunum — ég reikna með að flestir þingmenn hafi hlustað á Al Gore í dag lýsa því hvað getur gerst hjá okkur ef svo heldur fram sem horfir með Grænlandsísinn — þá er fleira sem þörf er á að gera en að munda byssurnar sem er verkefni NATO fyrst og síðast, hv. þingmaður.