135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:08]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Svo sannarlega mundar NATO byssurnar og einmitt þessa dagana stendur til að stilla þeim upp í Póllandi fyrir tilstilli Íslands eins og hér hefur verið upplýst í umræðunni. Það er mjög mikill munur á því hvort fulltrúar þjóða hittast á forsendum friðar og samvinnu eins og gert er í norðurskautsráðinu þar sem eiga aðild ekki bara NATO-þjóðirnar sem hér voru taldar upp, Ísland og Noregur, heldur einnig Rússar, Finnar, Svíar og samtök frumbyggja, íbúa á þessum slóðum. Þetta fólk á enga aðild að einhverri ráðstefnu NATO um öryggi á þessu svæði. Ég fullyrði að það eru önnur verkefni nærtækari en hernaðarlegt öryggi á norðursvæðinu.

Ég tel það líka einstaklega illa til fundið að halda slíkan fund hér á því sem næst 60 ára afmæli inngöngu Íslands í NATO sem var 30. mars 1949, því að það er ljóst af skýrslunni að það stendur til að halda þennan fund í upphafi árs 2009. Ég tel það einstaklega illa til fundið og þess vegna leyfi ég mér að skora á hæstv. ráðherra að efna frekar til ráðstefnu á forsendum friðar um málefni norðurskautsins og mér finnst, í tilefni dagsins og þess merka fyrirlesara sem hélt erindi yfir okkur fyrr í dag í Háskólabíói, að það sé nærtækara en, herra forseti, að munda byssurnar.