135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:41]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, hv. þingmaður spyr að því hvort að það sé ólýðræðislegt að nota vopn sér til sjálfshjálpar. Út af fyrir sig var ég ekkert að ræða um það. Ég var að ræða um friðsamlega sambúð þjóða og hvernig ég sæi fyrir mér að við ættum að vinna á þeim vettvangi.

Hernaðarbandalög eins og Atlantshafsbandalagið reka ekki nein sérstök verkefni núna til þess að verja sig. Þau átök sem þau hafa tekið þátt í eru allt annars staðar í heiminum, t.d. í Afganistan. Eru þau þar til að verja sjálf sig? Ég lít ekki svo á heldur séu þau þarna á allt öðrum forsendum. Þingmaðurinn spurði líka hvort sjálfstæð utanríkisstefna og lýðræðisleg utanríkisstefna væru í andstöðu hvor við aðra, ef ég skildi hann rétt — (ÁPÁ: Virk og sjálfstæð.) Virk og sjálfstæð. Nei, það sem ég sagði nákvæmlega var að ég tel að virk og sjálfstæð utanríkisstefna geti alveg farið saman, að sjálfsögðu, og ég vil sjá sjálfstæða og virka utanríkisstefnu.

Hv. þingmaður spyr hvort það liggi í orðum mínum að það sé ósjálfstæð utanríkisstefna að vera í NATO, hann segir að það hafi verið undirliggjandi í máli mínu, þá segi ég: Það þarf auðvitað ekki að vera það. En vandinn er auðvitað sá að hernaðarbandalög eins og Atlantshafsbandalagið sem við erum þátttakendur í starfa ekki á þeim forsendum sem við viljum sjá að liggi á bak við alþjóðlega utanríkisstefnu okkar. Hernaðarbandalög eru auðvitað drifin áfram af því sem þau nærast á sem er hernaðarmátturinn, vígvæðingin. Það er það sem ræður því miður allt of miklu í bandarískum stjórnmálum og hefur a.m.k. gert lengst af og þegar við fylgjum þeim áherslum og þeirri stefnu þá er utanríkisstefna okkar (Forseti hringir.) ekki sjálfstæð.