135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:45]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að Atlantshafsbandalagið sé ekki hernaðarbandalag. Ég spyr þá á móti: Er þá ekki bara rétt að leggja þessi samtök niður? Höfum við ekki nóg af öðrum stofnunum sem geta tekið við hlutverki þessa, eigum við að segja friðarbandalags, sem mér virðist hv. varaformaður utanríkismálanefndar tala um að Atlantshafsbandalagið sé? Höfum við ekki stofnanir eins og ÖSE? Höfum við ekki stofnanir eins og Evrópuráðið og Sameinuðu þjóðirnar sem geta sinnt þessu hlutverki? Ef Atlantshafsbandalagið er ekki hernaðarbandalag þá sé ég ekki annað en að hlutverki þess sé lokið og hægt sé að leggja það niður og værum við þá fegin því.

Varðandi hina spurninguna, um það hvort lýðræðisríki megi ekki nota vopn í sjálfsvörn og þingmaðurinn á þá væntanlega við ef á þau yrði ráðist. Ég held að ég verði að svara þessu þannig að ef ráðist er á ríki þá hljóti öll sjálfstæð ríki að taka til varna með þeim hætti sem þau geta.

Við höfum talað fyrir því, m.a. í umræðunni um varnarmálalögin og í því samhengi, að mikilvægasta verkefnið í varnarmálunum hér sé uppbygging eins og almannavarna og landhelgisgæslu, þessara borgaralegu varnarþátta, og að horfast í augu við þá ógn sem er kannski sú stærsta sem heimurinn glímir við í dag og er ekki hernaðarlegs eðlis heldur kannski miklu frekar náttúrulegs eðlis. Erum við þá að tala um vandann vegna loftslagsbreytinga, náttúruhamfara og slíkra hluta. Þar eru kannski stærstu viðfangsefnin og það eru viðfangsefni sem er ekki hægt að leysa eins og eitthvert stríð með hefðbundnum hætti og með hefðbundnum lausnum. Hið sama á við í raun og veru um vána sem stafar af hryðjuverkum. Það er ekki (Forseti hringir.) vá sem hægt er að leysa eða takast á við með hefðbundnum stríðsrekstri.