135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[17:48]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að blanda mér aðeins í þá umræðu sem hér hefur farið fram núna og það sem kom fram í máli m.a. hv. þingmanna Álfheiðar Ingadóttur og Árna Þórs Sigurðssonar.

Ég verð að játa það að mér finnst stundum á málflutningi sumra, vil ég leyfa mér að segja, þingmanna Vinstri grænna, og vísa ég þar til formannsins, hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, og eins fannst mér það einkenna málflutning hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur, að þau séu svo hert í þessari átakahefð kaldastríðsáranna að þau geti ekki undið ofan af þeim átökum öllum sem þá áttu sé stað og stóðu auðvitað um her í landinu m.a. og NATO og fleiri slíka þætti. Og þess vegna séu þau nokkuð föst í ákveðinni fortíð í sinni umræðu, hefð og hugtakanotkun, ef svo má að orði komast.

Mig langar aðeins til að vísa til þess sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði hér um fangaflugið og fannst lítið til þess koma að við værum að biðja flugstjórann um að upplýsa það hvort fangar væru um borð í flugvélunum, menn sem haldið væri þar föngnum. Hún taldi að við værum ekki að gera neina kröfu um að það skuli bannað að nota flugvellina okkar til mannréttindabrota. Það segir sig auðvitað sjálft að það er bannað að nota flugvellina okkar til mannréttindabrota. Það sem við erum að gera er að reyna að fylgja því eftir að svo sé ekki gert. Við erum að reyna að kalla til ábyrgðar ekki bara félögin sem nota vélarnar heldur líka flugmennina sjálfa. Við erum að reyna að setja á þetta eftirlit, bæði axlabönd og belti, ef svo má segja, að það sé ábyrgð flugmannanna ef slíkt fólk er um borð, ef fyrirtækin sem leigja þessar vélar láta ekki vita af því að þá sé að minnsta kosti flugmaðurinn líka gerður ábyrgur. Það er það sem við erum að reyna að gera með þeim reglum og vinnubrögðum sem við höfum tekið upp, við erum að minnsta kosti að leitast við að uppfylla þær leiðbeiningarreglur sem Amnesty International setti um þessa hluti. Það getur vel verið að þar megi alltaf gera betur en við verðum líka að huga að því að fara ekki út í svo viðamikið eftirlit að það sé langt umfram það sem einhver réttlát þörf er fyrir. En þetta erum við að reyna að gera.

Mér fannst afstaða þingmannsins til Afganistans ansi kaldranaleg. Mér finnst það kaldranaleg afstaða að segja að það séu næg verkefni fyrir okkur utan hernaðarátaka til að sinna mannúðaraðstoð. Alþjóðasamfélagið hefur ákveðið að takast á við það verkefni að reyna að tryggja öryggi og uppbyggingu í Afganistan. Þar eru 40 ríki að taka þátt. Af hverju ættum við að skorast úr leik? Af hverju ættum við að gera það? Bara til þess að okkur hér líði betur með það að þurfa ekki senda fólk, Íslendinga, inn á átakasvæði? Mér finnst það ekki vera rök í málinu. Við sendum engan nauðugan. Við sendum enga hermenn til landsins eins og margar þjóðir gera og þeir eru auðvitað sendir nauðugir, viljugir. Þeir sem fara á okkar vegum fara til að starfa að uppbyggingarverkefnum og mannúðarmálum og þeir gera það af fúsum og frjálsum vilja af því að þeir vilja það og skynja mikilvægi þess að takast á við þetta verkefni. Við getum ekki sagt fólkinu í þessu landi, fyrirgefðu, virðulegi forseti, „að éta það sem úti frýs“, ef svo má segja, og takast bara á við sín verkefni sjálft og þá ógn sem að því steðjar, við ætlum bara að þvo hendur okkar af þessu öllu saman. Það er ekki rétt afstaða að mínu viti og mér finnst hún kaldranaleg.

Varðandi það sem kom fram í máli þingmannsins Árna Þórs Sigurðssonar, sem spurði um samstarf um öryggismál. Það er rétt að það hefur verið ákveðið núna að boða til samstarfs milli formanna stjórnmálaflokkanna um öryggis- og varnarmál, tvisvar á ári er talað um, vor og haust. Það breytir ekki því að það er enn þá til skoðunar með hvaða hætti við getum komið upp einhverjum farvegi til þess að stunda frekari rannsóknir á öryggis- og varnarmálum og það er auðvitað sjálfsagt að við ræðum það á þeim vettvangi hvernig því verði best fyrir komið og hvernig við viljum sameiginlega standa að því. Ég tel að með þessu samráði séu utanríkisráðherra og forsætisráðherra að gefa kost á því að búa til þetta sammæli um stóru línurnar í öryggis- og varnarmálum okkar, þannig að formenn stjórnmálaflokkanna sem eru í stjórnarandstöðu séu vel upplýstir um meginlínurnar á því sviði.