135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:10]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka góða og áhugaverða yfirferð utanríkisráðherra yfir stöðu öryggismála og starfsemi utanríkisþjónustunnar. Mig langar að ræða hér svolítið afmarkað efni í þessu. Það er aðild okkar að NATO og verkefnaval okkar á þeim vettvangi og önnur þróunarsamvinnuverkefni.

Gríðarlega miklar breytingar hafa orðið hér á landi, eins og fram hefur komið, sem urðu við brotthvarf varnarliðsins og ábyrgð okkar í vörnum landsins hefur aukist gríðarlega við það. Það þurfti að endurskipuleggja hlutina algjörlega upp á nýtt og stór hluti af því er að búast undir þá vá sem almennt er talin ógna mest í heiminum í dag sem er náttúruvá. Það gleymdist að nefna í því samhengi hermdarverk og hryðjuverkastarfsemi. Það þarf auðvitað að byggja upp varnir okkar á þeim vettvangi og fulltrúar Vinstri grænna hafa komið hér upp og talað um að frekar ætti að leggja áherslu á uppbyggingu lögreglu og landhelgisgæslu. Slíkt hefur vissulega verið gert en þegar það mál er til umræðu fárast þeir út í það líka. Þeir sjá því allt til foráttu að hér skuli vera í farvatninu sérsveit og varalið og uppbygging á þeim vettvangi til borgaralegra starfa.

Hernaðarógn hefur breyst mikið á síðustu árum og áratugum, ég tala nú ekki um hér í okkar heimshluta þar sem vart er hægt að tala um hernaðarógn lengur. Það er af sem áður var og mikilvægi okkar innan NATO var á sínum tíma bundið við legu landsins og skilaði það miklu og mikilvægu hlutverki á þeim tíma þegar okkar heimshluti var mikilvægur í hernaðarlegu tilliti. En hernaðarógnin er ekki til staðar lengur.

Við brotthvarf varnarliðsins var gerður varnarsamningur við Bandaríkin um að þeir kæmu og verðu landið hér á ófriðartímum. Má að því leyti segja að við séum með uppbyggingu lögreglu, landhelgisgæslu og björgunarsveita og síðan aftur með þessum varnarsamningi sem kemur þá til kasta á ófriðartímum, í þeim farvegi að ganga tryggilega frá vörnum landsins. Við erum herlaus þjóð og þannig er staða okkar innan NATO og hún hefur ekki tekið neinum breytingum.

Með þessar staðreyndir í farteskinu vil ég að verkefnaval okkar sé skoðað í samstarfi okkar innan NATO. Við höfum auðvitað takmarkað fjármagn, við erum fámenn þjóð í þessu samstarfi og upphæðirnar eru svo sem ekki háar í samanburði við aðrar þjóðir. Við þurfum því að velta því vandlega fyrir okkur hvernig við ráðstöfum þessu takmarkaða fjármagni okkar. Við höfum mikla reynslu og þekkingu sem geta reynst vel á alþjóðavettvangi. Í gegnum árin höfum við valið okkur þau vinnubrögð að leysa öll ágreiningsmál með lýðræðislegum aðferðum og það er kannski okkar sterkasta vopn.

Áherslur í starfi NATO eru ekki eingöngu hernaðarlegar og á síðustu árum og áratugum hefur vægi borgaralegra verkefna aukist mjög mikið í starfsemi NATO. Það má segja að unnið sé að uppbyggingu samfélaga, alþjóðlegu björgunarstarfi og friðargæsluverkefnum, sem er í þessu tilfelli í Afganistan, í umboði Sameinuðu þjóðanna ásamt fjölda annarra ríkja. Þetta eru dæmi um störf sem NATO hefur tileinkað sér í auknum mæli. Ég fagna yfirlýsingu ráðherra um að efla eigi starf okkar innan NATO vegna þess að ég er þess fullviss að það er rétt stefna. Við eigum að vera af fullri alvöru í því samstarfi en á þeim forsendum sem við veljum okkur og á þeim forsendum þar sem við stöndum sterkust, í uppbyggingu og borgaralegum verkefnum.

Ég gat alls ekki lesið út úr stefnuyfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon las út úr henni, að það stæði til að senda fleiri undir alvæpni. Við viljum auðvitað tryggja hámarksvarnir okkar fólks sem fer til starfa á þessum vettvangi og tryggja að það geti varið sig ef á það er ráðist, það er eðlilegt. NATO-væðing þarf þess vegna alls ekki að þýða hervæðing. Við erum að fullu þátttakendur í þessu verkefni og ég vil taka undir þau orð að við hlaupumst ekki á brott frá Afganistan og skeytingarleysi er ekki valkostur í alþjóðamálum þegar að þessu kemur. Það er skylda okkar gagnvart þessari stríðshrjáðu og fátæku þjóð að við klárum þessi verkefni og tökum þátt í klára þau verkefni sem við höfum ráðist í þar.

Ég segi eins og áðan að ég vil að verkefnavalið grundvallist á borgaralegum nótum. Við eigum gríðarlega marga möguleika þegar kemur að verkefnavali á þeim vettvangi. Það má nefna mannréttindamál, heilbrigðismál, uppbyggingu mennta- og skólakerfis, réttarfarskerfis, löggæslu, uppbyggingu á vegum orku- og atvinnumála og umgengni og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda til lands og sjávar. Það má telja margt fleira þar sem við höfum virkilega margt til málanna að leggja og getum verið í forustu innan NATO á þessum vettvangi. Utanríkisráðherra nefndi hér hvað litlar vatnsaflsvirkjanir geta breytt miklu þegar kemur að þessum vanbúnu þjóðum og orkuaflsvirkjanir eru eitthvað sem við erum hvað sterkust í.

Á sama tíma og ég fagna stefnu hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar í málefnum NATO vil ég þó gera athugasemdir við ákveðið verkefnaval sem fyrir liggur. Ég hef, eins og áður hefur komið fram, ekki talið þörf á því að Ratsjárstofnun sé rekin eins og hugmyndir eru um hér á landi. Ég tel að hægt sé að gera það með miklu einfaldari hætti. Það verður að taka fram að þegar Bandaríkjamenn gerðu hér varnarsamning við okkur um að bregðast við á hættutímum, töldu þeir ekki þörf á að þetta ratsjárkerfi væri starfrækt þess vegna, þeir þyrftu ekki upplýsingar frá því. Ef hægt er að sameina þetta eftirlit með öðru hér innan lands og láta greininguna á merkjunum fara fram annars staðar, sem og er gert — viðbrögðin við þessum merkjum eru jú ákveðin annars staðar en hjá okkur, þau eru ákveðin í herstöðvum NATO í Evrópu. Við eigum að sjálfsögðu að vera í fullu samstarfi við NATO um hvaða stefnu þeir vilja hafa hvað þetta varðar en ég er ekki sannfærður um þá leið sem farin er núna.

Það sama á við um svokallað loftrýmiseftirlit sem fyrirhugað er. Mér skilst að fyrsta flugsveitin, sem er frönsk, sé á leiðinni til landsins og verði hér kannski í fjórar, fimm vikur, og að það sé fyrirhugað að gera tvisvar til þrisvar sinnum á ári. Þessari starfsemi sem ég hef talið hér upp fylgir margra milljóna króna kostnaður á ári. Ég tel t.d. að loftrýmiseftirlitið hafi mjög lítinn tilgang, t.d. að það hafi engan tilgang í vörnum landsins og sé þess vegna í raun sóun á fjármagni sem mætti nota í önnur verkefni og með betri árangri annars staðar.

Mörkin á milli þróunaraðstoðar innan og utan NATO eru nokkuð óljós en aðalatriðið er að við veljum okkur verkefni með tilliti til þess vettvangs þar sem við erum sterkust. Mig langar að nefna hér eitt verkefni sem ég kynntist örlítið af því að ég hafði tækifæri til þess að sækja ráðstefnu utanríkisráðuneytisins í Barbados í Karíbahafi fyrir stuttu síðan. Mér líst mjög vel á að við störfum og leggjum aukna áherslu á samstarf með þessum eyþjóðum sem að mörgu leyti eru svo veikar og geta svo margt af okkur lært. Við höfum virkilega margt fram að færa. Þessar þjóðir eru flestar fámennar og það sem vekur fyrst athygli er að af takmörkuðum útflutningstekjum þeirra fara yfir 50% í olíukaup. Þarna eru háhitasvæði þar sem við getum sannarlega komið til aðstoðar. Þeir eiga enga landhelgisgæslu, þeir hafa lítið sem ekkert eftirlit með skipum og bátum í landhelgi sinni, þeir eiga ágæt fiskimið en öryggismál og eftirlit með þeim eru í algjörum ólestri.

Virðulegi forseti. Við förum ekki alvopnuð til þeirra verkefna frekar en annarra en ég legg á það áherslu að innan NATO sem utan veljum við okkur verkefni sem hæfa okkur sem herlausri og friðarsinnaðri þjóð.