135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:22]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í kafla IV. í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál er yfirskriftin Heilindi og festa í utanríkismálum. Þar er komið að litlu leyti inn á málefni Tíbets. Grundvallartónninn er sá að við hlaupumst ekki undan merkjum heldur komum við skilaboðum okkar skýrt á framfæri til þeirra þjóða sem brjóta mannréttindi eða grunur leikur á að brjóti mannréttindi.

Það er forsenda mannréttindastefnu Íslands að afstaða Íslands sé yfirveguð og skýr. Ég tel að hún sé það. Ég vil vitna í orð utanríkisráðherra. Hún segir að í þessu samhengi hafi hún þegar tjáð sendiherra Kína að Ísland telji það þjóðréttarlega skyldu Kínverja að virða mannréttindi íbúa Tíbets. Þar eru mjög ákveðin skilaboð af hálfu íslenskra stjórnvalda til Kínverja um að mannréttindi í Tíbet skuli virt og að Íslendingar telji að þar hafi hlutirnir gengið of langt. Að öðrum kosti hefði hæstv. utanríkisráðherra ekki séð ástæðu til að gera þessa athugasemd.

Ég læt duga að vitna í þau orð. Ég er fylgjandi þeim vinnubrögðum sem hæstv. utanríkisráðherra viðhefur í þessu máli.