135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:40]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég mun ekki leggja höfuðið að veði varðandi það minni mitt frá því fyrir áratugum að að einhverju leyti höfum við viðurkennt yfirráð yfir hluta af Vesturbakkanum, þ.e. þeim hluta sem er innan Jerúsalems. Sé það rangt hjá mér biðst ég forláts á því.

Ég vil aftur á móti ekki sitja af mér það tækifæri að koma aðeins inn í þá umræðu sem hv. þingmaður vakti upp um Palestínumenn. Ég fagnaði ferð hæstv. utanríkisráðherra til Ísraels og Palestínu á liðnu sumri og taldi hana um margt góða. Ég tel þó að íslensk stjórnvöld hefðu átt að sýna þann kjark og það frumkvæði í því máli að þora að taka upp beinar viðræður við Hamas-samtökin.

Ég er ekki að segja að á því séu ekki tvær hliðar. Ég geri mér grein fyrir því að Hamas-samtökin eru ekki friðarklúbbur að öllu leyti en þau hafa engu að síður hlotið lýðræðislegt kjör á þessu svæði og því vil ég nota tækifærið til að koma þessu á framfæri. Ég held að friðsamleg lausn á Vesturbakkanum náist ekki nema eðlileg samskipti náist við Hamas-samtökin. Lengi vel voru Fatasamtök Yassers Arafats skilgreind sem hryðjuverkasamtök og á þeim forsendum ekki talað við þá. Nú eru sömu forsendur notaðar gagnvart þessum samtökum sem njóta hvað mest fylgis meðal Palestínumanna. Ég hygg reyndar að milli okkar hv. þm. Jóns Magnússonar sé kannski ekski mikill ágreiningur um þessi mál.