135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:55]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði hér, hafi ég heyrt það rétt, að afstaða þingmanna Vinstri grænna varðandi atriði eins og stækkun NATO kæmi á óvart. Ég bara trúi því ekki eitt augnablik að afstaða okkar í því efni komi þingmanninum á óvart. Vegna þess að það hefur komið fram í málflutningi okkar og ég sagði það t.d. fyrir mitt leyti að afstaða mín byggir á því að ég er andvígur aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, ég er andvígur hernaðarbandalögum eins og ég lít á að Atlantshafsbandalagið sé.

Um þetta geta auðvitað verið skiptar skoðanir og eru augljóslega skiptar skoðanir. Út frá þessum grundvallarsjónarmiðum getur maður auðvitað tekið þá afstöðu að segja: Ég ætla ekki að taka afstöðu til spurninga um stækkun Atlantshafsbandalagsins af því að ég er á móti aðild okkar að því og vil helst ekki að þetta bandalag sé til. En við getum líka sagt að einmitt vegna þessarar afstöðu okkar ættum við að leggjast gegn því að það verði stækkað, ef við erum þeirrar skoðunar að það eigi að minnka og hverfa. Þess vegna á þessi afstaða alls ekki koma á óvart. Mér finnst miklu frekar að menn eigi þá að koma hér og segja að þeir skilji þennan málflutning miðað við þau sjónarmið sem við höfum haldið uppi jafnvel þótt þeir séu andvígir okkur að þessu leyti.

Þingmaðurinn ræddi líka um að mikilvægt væri að ná góðri og breiðri samstöðu í utanríkismálum og ég held að við höfum líka lagt áherslu það. Við höfum kallað eftir því og viljum gjarnan fá meira samráð og það sé mikilvægt að koma fram sem ein heild. Þetta nefndi ég líka í ræðu minni. En þá verða stjórnvöld líka að skynja að það eru ýmsir tónar sem slá í hinni pólitísku utanríkismálaumræðu hér og stjórnvöld verða (Forseti hringir.) líka að geta reitt sig og verið gagnrýnin á hluti jafnvel þó að þau séu að tala fyrir þeim.