135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[19:00]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég get tekið undir lokaorð í ræðu formanns utanríkismálanefndar hér áðan. Hér held að það væri framfaraspor að menn hefðu meira samráð og að þingið verði virkara í stefnumótun á sviði utanríkis- og öryggismála. Ég er sannfærður um að það er til bóta frekar en hitt að menn tali saman og ólík sjónarmið fái að heyrast á frumstigum mála og menn standi sem sjaldnast frammi fyrir gerðum hlut og allt sé búið eins og því miður hefur stundum gerst bæði nær okkur í tíma og fjær, jafnvel að Ísland sé sett á lista yfir þjóðir sem styðji stríð að öllum forspurðum sem að því hefðu átt að koma.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það skipti miklu máli, hvort sem menn eru hrifnir af aðild okkar að NATO eða ekki meðan við erum þar inni, hvernig við stöndum þar að málum. Gagnrýni mín hér í dag meðal annars á afstöðu Íslands á Búkarest-fundinum er á þeim grunni byggð, að mér finnst eftir sem áður skipta máli, þó ég sé ekkert hrifinn af því að okkar fólk sé að fara þangað af því við séum í bandalaginu, þá finnst mér skipta máli hvaða afstöðu við tökum. Ég harma að Ísland skuli ekki hafa lýst fyrirvörum eða helst lýst sig andvígt því að eldflaugavarnakerfinu yrði komið upp í Evrópu vegna þeirrar hættu á stigvaxandi spennu og vígbúnaðarkapphlaupi sem það kann að hafa í för með sér. Má ég þá minna á að verið er að troða þessu kerfi upp á Tékka og Pólverja í andstöðu við þær þjóðir. Það liggur til dæmis fyrir alveg glæný stór skoðanakönnun í Tékklandi sem sýnir að rúm 67% tékknesku þjóðarinnar er andvíg því að Radwar-stöðvarnar verði settar þar upp. En stjórnvöld undir þrýstingi frá Bandaríkjamönnum eru engu að síður að reyna að vinna því braut.

Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika að í þágu þessa sögðu Bandaríkjamenn upp ABM-samningnum 2002 og Rússar tilkynntu í fyrra að þeir mundu ekki framlengja eða frysta samninginn um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu. Ég meina, finnst mönnum þetta ekki alvarlegt? Finnst mönnum þetta vera jákvætt, gott og bara hrifningin alltumlykjandi af því þetta er NATO?

Sjálfsvarnarréttur þjóða er að sjálfsögðu tryggður í sáttmála Sameinuðu þjóðanna í 42. greininni eða hvar þar nú er. Um það er ekkert verið að ræða hér að þjóð sem á er ráðist á þjóðréttarlegan og lagalegan rétt til þess að reyna að verja sig. Það er ekki það sem þetta snýst um hjá NATO, né heldur eru þeir leiðangrar flestir, þó langsótt sé, sem NATO hefur staðið fyrir þannig hugsaðir. Má ég minna á að þetta er nú NATO sem byggir á tilvist kjarnorkuvopna, sem áskilur sér rétt til að beita þeim jafnvel að fyrra bragði, kjarnorkuvopna sem Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur dæmt ólögmæt, ekki bara beitingu þeirra eða hótun um að beita þeim heldur tilvist þeirra sem slíkra. Hún samrýmist ekki grundvallaralþjóðasamningum um mannréttindi og friðhelgi og vernd borgara og svo framvegis vegna þess að þessi vopn eru þess eðlis að beiting þeirra hlýtur alltaf að fela í sér brot á mannúðarlögum. Það er ekki hægt að beita kjarnorkuvopnum öðruvísi en þannig að alsaklaust fólk, óbreyttir borgarar verði fórnarlömb í stórum stíl. Þetta er nú NATO líka með í farteskinu.

Ég fagna því mjög að utanríkismálanefnd hefur áform um að gera sig meira gildandi og virkari í þessum efnum. Fjölmörg mál hefur sáralítið tekist að nefna hér í umræðunni. Tillögur sem liggja fyrir þingi sumar hverjar hafa ekki komist til nefndar einu sinni. Ég minni á að það liggur hér fyrir tillaga um að Íslendingar styðji sjálfstæðisbaráttu Vestur-Sahara úr því það mál var nefnt hér. Tillaga er hér á dagskrá um að við köllum liðsafla okkar heim frá Afganistan. Hún er eitthvað umdeild heyrist mér en hún er engu að síður flutt í fullri alvöru og er í miðri umræðu.

Ég minni á að ég hef flutt tillögu sem reyndar er studd af öllum flokkum, flutt af tveimur, þremur þingmönnum úr öllum flokkum um að Alþingi feli utanríkisráðherra að kanna möguleika þess að Ísland setji á fót eða bjóðist til að hýsa og koma hér á fót smáríkjastofnun undir hatti Sameinuðu þjóðanna. Það hefði verið gaman að heyra hvort hæstv. utanríkisráðherra hefur haft tíma til að kynna sér þær hugmyndir og hvaða afstöðu hæstv. ráðherra hefur þá til þess.

Í utanríkismálanefnd liggur fyrir tillaga um málefni Tíbets sem verður tekin þar fyrir á næsta fundi. Af því hv. þm. Bjarni Harðarson hefur verið eljusamur hér í dag um að minna á málefni Tíbets þá er rétt að það komi hér fram og sama má segja um tillögu sem liggur inni í utanríkismálanefnd og góð samstaða er um að afgreiða, um að Alþingi fordæmi mannréttindabrotin í Guantanamo-fangabúðunum við Svínaflóa á Kúbu.

Af ýmsu er að taka, virðulegur forseti, og við hefðum næg efni (Forseti hringir.) til að halda hér mun lengri umræður um utanríkismál þótt þetta sé auðvitað orðin ágætislota í dag af því af (Forseti hringir.) miklu er að taka.