135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[19:05]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég geri ráð fyrir því að það sé komið að lokum þessarar umræðu sem staðið hefur núna yfir frá því klukkan tvö í dag. Ég vil bara þakka öllum þeim sem þátt hafa tekið í henni fyrir málefnaleg og áhugaverð innlegg í þau utanríkis- og alþjóðamál sem hér hafa verið til umfjöllunar.

Ég hjó eftir því máli hv. þm. Bjarna Harðarsonar að hann hélt því fram að Ísland hefði með einhverjum hætti eða á einhverjum tíma viðurkennt yfirráð Ísraels yfir Jerúsalem. Það er ekki rétt. Ísland hefur aldrei gert það. Ég held að ég geti sagt að nánast öll ríki heims viðurkenna ekki yfirráð Ísraels yfir Jerúsalem og meðal annars þess vegna eru sendiráð erlendra ríkja gagnvart Ísrael staðsett í Tel Aviv en ekki í Jerúsalem. Það er ekki viðurkennt að Ísraelsmenn hafi þetta forræði á borginni og samkvæmt alþjóðalögum er innlimun Ísraels á Jerúsalemborg ekki lögleg. Við höfum aldrei viðurkennt það svo að þeim misskilningi sé eytt.

Hér hafa þessi málefni komið nokkuð til umræðu, málefni Palestínu og Ísraels. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við fylgjumst mjög grannt með því sem þar er að gerast og við látum vita af því eins og við höfum gert hingað til og ég hef gert oftar en einu sinni og oftar en tvisvar, látið stjórnvöld í Ísrael vita af því þegar okkur er misboðið vegna þess sem þar er að gerast.

Það sama á við Tíbet. Þegar við teljum að stjórnvöld fari fram af hörku, gæti ekki meðalhófs og virði ekki réttindi þegna sinna þá eigum við að láta þau stjórnvöld sem við erum í sambandi við vita af því eins og góðir grannar eiga að gera. Þetta eru okkar vináttuþjóðir, Kínverjar og Ísraelsmenn. Þetta eru vinaþjóðir okkar og sá er vinur sem til vamms segir. Þess vegna eigum við að láta vita þegar okkur mislíkar.

Varðandi NATO þá tek ég bara undir það sem formaður utanríkismálanefndar sagði hér, að það væri mikilvægt að við færum að sættast á það og ganga út frá því sem staðreynd að við erum í NATO. Það urðu mikil átök um það 30. mars 1949 þegar Ísland gerðist aðili að NATO og það á sér auðvitað rætur í því meðal annars að þetta var nýlega frjáls þjóð sem taldi að þarna væri verið að leggja á hana bönd sem menn sættu sig ekki við. Síðan eru hins vegar liðin 60 ár og það hefur engin þjóð gengið úr NATO á þessum 60 árum. Það hafa hins vegar margar þjóðir komið inn og þær eru orðnar 26 talsins. Ég held að það sé mikilvægt að við göngum út frá því sem staðreynd að þarna erum við og síðan getum við haft skoðanir á því einmitt sem gerist innan vébanda NATO og rökrætt það. En mér segir svo hugur um og ég hef kannski sagt það áður hér á þingi, að ef vinstri grænir stæðu andspænis því að setjast í ríkisstjórn þá mundu þeir ekki gera það að úrslitaatriði að Íslands segði sig úr NATO enda væru þeir þá að dæma sig úr leik algjörlega í (Gripið fram í.) íslenskum stjórnmálum. En vel kann að vera að þetta sé misskilningur hjá mér og að þeir mundu nota þetta og segja að það væri algjört úrslitaatriði að Ísland segði sig úr NATO (Gripið fram í.) og þá þarf auðvitað ekkert að spyrja að leikslokum í því sambandi. En það geta þeir náttúrlega upplýst. Ég þekki það ekki. (Gripið fram í.)

Varðandi samráð um utanríkismál þá er allur gangur á því hversu mikið það hefur verið. Það var ekkert samráð þegar Íslendingar fóru á lista hinna vígfúsu þjóða varðandi Írak. Það var ekkert samráð um það þegar herinn fór héðan. Það má verulega bæta úr þessu. Ég tel mig hafa reynt að vinna að því að gera það og hef komið fyrir nefndina líklega fjórum sinnum og ég veit að fólk úr utanríkisráðuneytinu hefur margoft komið. En það má auðvitað alltaf finna tækifæri til þess að ræða betur saman um þau stefnumál sem miklu skipta. Ég lýsi bara yfir hér eins og endranær að ég er tilbúin til þess að ástunda gott samráð við nefndina ef það má verða til þess að auka almennt sammæli í utanríkismálum.