135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[19:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þannig er með Vinstri græna að þeir láta ekki taka af sér réttinn til þess að dreyma um betri heim, heim án hernaðarbandalaga, friðvænlegan heim, heim þar sem vígbúnaðarkapphlaupið veldur ekki þeirri sóun verðmæta sem það gerir og heim án hernaðarbandalaga. Það er okkar afstaða. Við vildum sjá Ísland utan hernaðarbandalaga og hernaðarbandalög aflögð. En okkar áherslur í þeim efnum hafa ekki verið settar fram með þeim hætti að það sé úrslitaatriði af okkar hálfu og að við getum ekki komið að stjórn landsins nema að við göngum fyrst úr NATO. Hvort sem ég hryggi nú eða gleð hæstv. utanríkisráðherra með þessu svari þá er það þannig. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að í hópi stjórnmálaflokkanna í landinu erum við ein um þessa afstöðu.

Ég vona að Samfylkingin noti ekki þetta svar þannig, úr því ég segi þetta, að þá verði það meðhöndlað með sama hætti og ýmis ummæli mín um umhverfismál að ég sé þar með orðinn hlynntur NATO og eindreginn stuðningsmaður þess (Gripið fram í.) því það er ég ekki. Það er ég ekki. Auðvitað mætti reyna að snúa út úr þessu svona — er það ekki? — með svipuðum hætti og ég á að hafa verið orðinn óskaplega hlynntur Helguvík af því við settum það ekki fyrir fram upp sem úrslitakröfu, frekar en til dæmis Samfylkingin setur aðild að Evrópusambandinu fram sem úrslitakröfu. Mér sýnist að það hafi ekki verið svo þegar Samfylkingin fór inn í þessa ríkisstjórn, þ.e. draumamálið mikla sem á að leysa allan vanda þjóðarinnar, innganga í Evrópusambandið, reyndist ekki úrslitakrafa Samfylkingarinnar væntanlega vegna þess að Samfylkingin gerir sér grein fyrir því að hún hefur ekki pólitískt afl til að koma þeirri kröfu fram og verður þá að miðla málum í þeim efnum við aðra flokka. Við mundum því ekki gera það að úrslitakröfu að við gengjum úr NATO. En við mundum hins vegar halda áfram að vinna að því að heimurinn yrði án hernaðarbandalaga og við þyrftum ekki að horfa upp á þá sóun sem í valdbeitingunni og vígbúnaðinum er fólgin. (Gripið fram í.) Að það sé eitthvað sem eigi sérstaklega skylt við lýðræði að hrúga upp vopnum til þess að geta beitt valdi þá tek ég undir það sem (Forseti hringir.) áður hefur verið sagt hér í dag að ég á dálítið erfitt með að koma því heim og saman að lýðræði vaxi sérstaklega úr þeim garði vígbúnaðar og valdbeitingar.