135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

fullgilding Palermó-samnings gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.

493. mál
[20:08]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Frú forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að fullgilda Palermó-samning gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi sem samþykkur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. nóvember árið 2000.

Markmið Palermó-samningsins er að efla baráttuna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi sem hefur færst í aukana á síðustu árum. Með aðild að samningnum gangast ríki undir skuldbindingar um að auka samvinnu við önnur ríki til þess að unnt sé að berjast gegn slíkri glæpastarfsemi með skilvirkari hætti en áður.

Í þessum tilgangi þarf annars vegar að draga úr mismunun á réttarkerfum, sem hefur torveldað samstarf ríkja, og hins vegar að gera lágmarkskröfur til landsréttar aðildarríkjanna til þess að efla alþjóðlegt samstarf. Því miðar samningurinn m.a. að því að samhæfa stefnumörkun aðildarríkjanna, lagalegar heimildir þeirra og aðferðir fullnustuvaldhafa gegn þeim sem skipuleggja fjölþjóðlega glæpi þannig að sameiginlegar aðgerðir ríkja til að koma böndum yfir þá verði árangursríkari.

Samningurinn gerir jafnframt ráð fyrir bættri samvinnu aðildarríkja um málefni á borð við framsal, gagnkvæma dómsmálaaðstoð, meðferð sakamála og sameiginlega rannsókn þeirra. Unnið skal að því að hlífa löglegri markaðsstarfsemi við áhrifum og aðkomu skipulagðra glæpasamtaka og kveðið er á um vernd vitna og fórnarlamba. Þar að auki skulu aðildarríki veita þróunarlöndum tækniaðstoð og auðvelda þeim að gera nauðsynlegar ráðstafanir og ná fram getu til þess að takast á við skipulagða glæpastarfsemi.

Með fullgildingu samningsins skuldbinda ríki sig til þess að gera refsiverða í landsrétti sínum þátttöku í skipulögðum glæpasamtökum, þvætti ávinnings af glæp, spillingu og hindrun á framgangi réttvísinnar.

Samningurinn gildir um varnir gegn, rannsókn á og saksókn vegna framangreindra brota og annarra alvarlegra glæpa, ef þau eru þáttur í fjölþjóðlegri glæpastarfsemi þar sem skipulögð glæpasamtök koma við sögu.

Þrátt fyrir að samningurinn kveði á um mun öflugra samstarf ríkja en áður hefur tíðkast er meginreglunnar um jafnræði fullvalda ríkja fyllilega gætt og samningurinn veitir aðildarríki ekki rétt til þess að beita lögsögu sinni á yfirráðasvæði annars aðildarríkis.

Samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd 13. desember 2000 en öðlaðist gildi 29. september 2003. Aðildarríki samningsins eru 138. Fullgilding þessa samnings kallar á breytingar á lögum hér á landi og hefur dóms- og kirkjumálaráðherra lagt frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni umræðu um tillöguna verði henni vísað til hv. utanríkismálanefndar.