135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

breyting á samningi um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum.

498. mál
[20:24]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á bókun sem gerð var í London 2. maí 1996, um breytingu á samningi um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum, sem gerður var í London 19. nóvember 1976.

Líkt og samningurinn sem hún breytir var bókunin gerð á vegum Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar. Samningurinn tilgreinir hverjum er heimilt að takmarka ábyrgð sína vegna sjóréttarkrafna, svo og til hvaða krafna heimild til takmörkunar ábyrgðar tekur. Með samningnum er ákveðnum aðilum veitt heimild til að takmarka fjárhæð skaðabótaábyrgðar vegna krafna er varða m.a. manntjón, líkamstjón, eignamissi og eignatjón, sem verða í ákveðnum tilvikum, svo og tjón sem hlýst sökum tafa á sjóflutningum farms, farþega eða farangurs þeirra eða brota á öðrum rétti en samningsrétti.

Tilgangur bókunarinnar er að hækka þær fjárhæðir sem tilgreindar eru í samningnum og koma á einfaldari málsmeðferð við að breyta þeim síðar. Staðfesting bókunarinnar felur þar af leiðandi í sér verulegar réttarbætur fyrir tjónþola. Bókunin gerir aðildarríkjum kleift að gera tvenns konar fyrirvara. Mikilvægt er að Ísland nýti sér þessa heimild til þess að hafa svigrúm til ákvarðanatöku í framtíðinni.

Ísland er ekki aðili að áðurnefndum samningi en bókunin kveður á um að ríki geti gerst aðili að bókuninni án þess að hafa fyrst fullgilt samninginn, en það skal þá teljast bundið af samningnum. Bókunin öðlaðist gildi 13. maí 2004 og eru 25 ríki aðilar að henni.

Lög nr. 159/2007, um breytingu á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum, munu taka gildi 1. janúar 2009. Þau gera það að verkum að Ísland getur staðið við þær skuldbindingar sem staðfesting bókunarinnar hefur í för með sér.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.